Dagskrá Ormsteitis laugardaginn 11. agúst – nýbúadagur – hverfahátíð – skógarhlaup - karneval

Á ORMSTEITI hefur sú hefð skapast að bjóða öllum sem flutt hafa til Fljótsdalshéraðs frá því síðasta Ormsteiti var haldið, til sérstakrar móttöku og dagskrár á nýbúadegi Ormsteitis. Dagskráin á nýbúadegi verður sem hér segir :

Laugardaginn 11. ágúst

Kl. 09.30 Ormaveisla í Egilsstaðavík. Hin árlega ormaveisla í umsjá skátafélagsins Héraðsbúa. Skátarnir ganga fylktu liði frá Sláturhúsinu kl. 9.00 niður í Egilsstaðavíkina. Þar verða grillaðir brauðormar og þeim skolað niður með eiturhressandi ormadjús.

Kl. 10.00 Morgunverðarboð Gistihússins á Egilsstöðum og Landsbankans í garðinum við Gistihúsið.

Kl. 11.00 Móttaka. Formleg móttaka sveitarfélagsins á nýjum íbúum Fljótsdalshéraðs í garðinum við Gistihúsið. Þeir sem flutt hafa í sveitarfélagið á árinu eru hvattir til að taka þátt í þessari dagskrá, sem er þeim sérstaklega ætluð. Þetta er skemmtileg og góð leið til að kynnast samfélaginu og sýna sig og sjá aðra, svo og fyrir Fljótsdalshérað að bjóða nýja íbúa velkomna ! ................. að sjálfsögðu eru allir íbúar Fljótsdalshéraðs velkomnir og hvattir til að mæta á þessa dagskrárliði, sem og alla aðra dagskrárliði á ORMSTEITI – héraðshátíð Fljótsdalshéraðs. Bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar taka á móti nýjum íbúum í garðinum við Gistihúsið á Egilsstöðum og afhenda þeim birkiplöntu.

Þá hefst Skógarhlaup Íslandsbanka klukkan 11. Mæting er í Selsskógi klukkan 10.30. Lagt verður upp frá planinu fyrir framan Selskóg og komið í mark við útibú Íslandsbanka að Miðvangi 1. Tvær hlaupaleiðir eru í boði, 4 km skemmtiskokk og 10 km hlaup. Skráning er í útibúi Íslandsbanka á Egilsstöðum, á Facebooksíðu bankans en einnig á staðnum. Allir fá þátttökupening og þeir þrír fyrstu í 10 km karla og kvennahlaupi fá verðlaun.

Klukkan 14 verður leikritið Pétur og úlfurinn sýndur í útileikhúsinu í Selsskógi. Leikendur eru á aldrinum 13-16 ára og sýningin skemmtir jafnt börnum sem fullorðnum.

Hverfahátíðin hefst svo með götugrilli í hverfum á Egilsstöðum og í Fellabæ klukkan 16. En dreifbýlisfólki gefst kostur á að grilla í Lómatjarnargarði þar sem grill og kol verða á staðnum.

Skrúðgangan fer af stað klukkan 19. Hún hefst við Sláturhúsið, fer út Lagarás, Hörgsás, Tjarnarbraut og endar á Vilhjálmsvelli þar sem Hverfaleikarnir verða settir klukkan 19.30. Þar verður karneval og hverfin keppa um farandbikarinn góða.

Klukkan 22 hefst svo Fjölskyldudansleikur í Kornskálanum við Sláturhúsið. Hljómsveitin Bergmál leikur fyrir dansi.

Minna má á búningakeppnina á hverfaleikunum. Veitt verða vegleg verðlaun fyrir þrjá flottustu búningana. Reglunar má sjá í dagskrá ORMSTEITIS – en skráningu lýkur klukkan 23.59 í kvöld föstudaginn 10. ágúst.