Dagskrá Ormsteitis að skýrast

Ormsteiti Héraðshátíð hefst að venju um miðjan ágúst og stendur í tíu daga samfellt víðs vegar um Fljótsdalshérað. Dagskráin er óðum að mótast og verður hægt að fylgjast með og fá allar upplýsingar um hátíðina á www.ormsteiti.is  í sumar. 

Það sem hæst ber í dagskránni þetta árið er heimsókn írska karnivalshópsins Nanu – Nanu international, á setningarhátíð Ormsteitis. Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs í samstarfi við Menningarráð Austurlands, Fjölmenningarsetur Austurlands og Ormsteiti  hafa tekið höndum saman um Austurlandsverkefni sem hefur það markmið að efla karnivalhefðir í fjórðungnum. Fulltrúum allra sveitarfélaga á Austurlandi verður boðið að taka þátt í vikunámskeiði í byrjun ágúst þar sem írarnir kenna 20 manna hóp undirbúning og  skipulagningu á stórum karnivölum.

Markmiðið með verkefninu er að til verði á Austurlandi öflugur karnivalhópur sem hafi burði til að slá upp karnivali víðsvegar um fjórðunginn og jafnvel víðar um heim í framtíðinni.  Það verður spennandi að fylgjast með afrakstrinum að kvöldi 15. ágúst á Vilhjálmsvelli. Öllum íbúum Austurlands og gestum þeirra  verður boðið í heimsókn til Egilsstaða þetta kvöld og það er óhætt að segja að það verði mikið um dýrðir.