Dagskrá laugardagsins á Ormsteiti

Um margt er að velja á Ormsteiti á laugardeginum 15. ágúst. Á Egilsstöðum hefst dagskráin með hjólreiðakeppninni Tour de Ormurinn kl. 9.00 og verður ræst við N1. Síðan tekur við nýbúdagurinn við Gistihúsið á Egilsstöðum kl. 10.00. Austfjarðatröllið 2015 fer fram við Hótel Hérað kl. 11.30 og um svipað leyti má búast við að fyrstu þátttakendur úr Tour de Ormurinn fari að skila sér í mark við N1. Síðan tekur við Braggamarkaður við Sláturhúsið og Crossfitkeppni Heilsueflingar. Á sama tíma, eða kl. 13.00 er uppskerusýning vegna námskeiða sem Dansstúdíó Emelíu hefur haldið undanfarið. Landsvirkjun kynnir endurnýjanlega orku í samgöngutækjum í Valaskjálf milli kl. 13 og 16 þá verður þar sýnd heimildamyndin Búrfell á hálftíma fresti. Þá verður leiðsögumaður við Kárahnjúkastíflu milli kl. 14 og 17. Sagt verður frá framkvæmdum og náttúrufari undir norðanverðum Vatnajökli. Landsvirkjun fagnar 50 ára afmæli um þessar mundir. Atlantsolía býður upp á kaffi og með því ásamt afslætti af eldsneyti milli kl. 13 og 16 á Atlantsolíuplaninu.

Klukkan 16.00 hefjast hverfagrillin og fljótlega upp úr því byrja gula hverfið að undirbúa sig fyrir að leiða karnivalgönguna frá Sláturhúsinu. Skrúðgangan hefst kl. 19.00 og munu íbúar hverfanna sex sameinast göngunni. Gengið er upp Lagarás, Selás og Tjarnarbrautina og endað að vana á Vilhjálmsvelli. Skrúðgangan fer aftur frá þar sem hverfaleikarnir munu hefjast um kl. 19.30 með leikjum, söng, dansi og karamellukasti. Eins og fyrr segir verður marserað, að loknum hverfaleikunum, niður í Sláturhús, á eftir gula hverfinu. Þar, í Bragganum, munu um tuttugu félagasamtök og klúbbar bjóða upp persónulega kynningu á starfsemi sinni auk þess sem gefinn er kostur á að skrá sig í þessi félög og klúbba. Hreinn Halldórsson leikur undir á harmonikku. Um svipað leyti, þ.e. um kl. 21.30 verður blús og rokkhljómsveitin Ívar og félagar með tónleika á sviðinu við Braggann. Á Kaffi Egilsstöðum verður svo boðið upp á DJ Dodda Mix sem heldur uppi stuði fram á nótt.

En dagskráin á laugardeginum fer ekki aðeins fram á Egilsstöðum, því einnig verður mikið um að vera í Möðrudal, er þar fer fram hin hefðbundna Möðrudalsgleði. Hún hefst kl. 10.00 með gönguferð undir leiðsögn Vernharðs bónda. Messað verður í Möðrudalskirkju kl. 14.00 og á sama tíma er boðið upp á leiki og kayakfjör. Kaffihlaðborð hefst kl. 15.30 í Fjallakaffi en klukkan 16.00 verður Herðubreiðin máluð að hætti Stórvals, við Fjallakaffi. Þar verður einnig boðið upp á grill og hangiket kl. 18.00. Útitónleikar hefjast með Andreu Gylfadóttur og Magnúsi R. Einarssyni kl. 20.00 við Selána. Þá er boðið upp á einkatónleika með Andreu og Einari í Möðrudalskirkju kl. 22.00 og dansleikur með hljómsveitinni Lego verður á pallinum við Fjallakaffi frá kl. 23.00.

Dagskrá Ormsteitis má finna á www.ormsteiti.is og hér