Cinema Maximus vill efla kvikmyndagerð

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs leiðir nýtt verkefni í samstarfi við Kvikmyndaskóla Íslands, Eiða ehf. og 700IS Hreindýraland undir heitinu „CINEMA MAXIMUS“ en verkefnið fékk nýlega styrk frá Vaxtarsamningi Austurlands.

Tilgangur verkefnisins er að efla kvikmyndagerð, tækniþekkingu og aðferðafræði kvikmyndagerðar á Austurlandi og skapa í leiðinni sterkt tengslanet fagaðila í iðnaðinum innanlands sem utan.

Tónlistar-, video- og myndlistarmaðurinn Jym Daly frá Donegalsýslu á Írlandi mun koma á 700IS Hreindýraland í mars 2010 og vinna að verkefni þar sérstaklega fyrir hátíðina í samstarfi við listamann á Héraði.

Stefnt er á að fyrsti nemendahópur Kvikmyndaskóla Íslands komi í vinnubúðir að Eiðum í maí 2010 og vonir standa til að hópur kvikmyndaskólanema frá Kaliforníu í Bandaríkjunum heiðri íbúa Austfirðinga með nærveru sinni síðar á árinu 2010.