Bylting í sorphirðu á Héraði

Ákveðið var á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi að öll sorphirða á vegum Fljótsdalshéraðs fari í útboð á næstunni. Með nýju útboði verður bylting í endurnotkun og endurnýtingu sorps í sveitarfélaginu.

Sérstök áhersla er lögð á í þjónustu við íbúa og fyrirtæki sveitarfélagsins að dregið sé úr myndun úrgangs eins og kostur er, í samræmi við stefnu sveitarfélagsins.

Helstu breytingar sem verða á sorphirðu í sveitarfélaginu eru þær að komið verður upp svokölluðu þriggja tunnu kerfi og að íbúar taki þátt í flokkun sorps. Áætlað er að þriggja tunnu kerfið verði að fullu komið upp í öllu sveitarfélaginu haustið 2009. Þjónustuaðili sorphirðu mun útvega íbúum í þéttbýli lífræna tunnu, endurvinnslutunnu og tunnu fyrir almennan úrgang. Í dreifbýlinu mun þjónustuaðilinn útvega búnað til heimajarðgerðar ásamt endurvinnslutunnu og tunnu fyrir almennan úrgang. Öll heimili munu fá ílát til flokkunar í upphafi og sex mánaða skammt af pokum úr maís undir lífrænan úrgang. Jafnframt mun þjónustuaðili sorphirðu fara tvær ferðir á ári um sveitir til að hirða heyrúlluplast. Umtalsverðar endurbætur verða gerðar á gámasvæði móttöku- og þjónustustöðvar fyrir sorp í kjölfar útboðs.

Minni flutningur og urðun
Skarphéðinn Smári Þórhallsson,umhverfisfulltrúi hjá Fljótsdalshéraði, segir að markmiðið með breytingunum sé að fylgja eftir stefnu sveitarfélagsins í þessum málaflokki. “Það er ekki síður mikilvægt að við erum að breyta framkvæmd á sorphirðu í takt við stefnumótun umhverfisráðuneytisins og Evrópubandalagsins. Breytingunni fylgir líka talsvert hagræði því það má búast við því allt að 60% minna rúmmáli af sorpi sem kemur til urðunar.” Hann segir að fleiri sveitarfélög stefni á þetta fyrirkomulag. “Á Stykkishólmi er reynsla af þessu þriggja tunnu kerfi. Þar hafa markmið um rúmmálsminnkun á urðunarsorpi náðst og þar er almenn ánægja með fyrirkomulagið, sem er vissulega talsverð breyting fyrir íbúanna til að byrja með.” segir Skarphéðinn sem bendir á hagkvæmni sem fylgir minni flutningum á förgunarstað. “Aukin þjónusta við íbúana og umhverfisvernd með tilliti til endurvinnslu og endurnýtingar eru höfuðmarkmiðin með nýju skipulagi.”