Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 6. júní sl. tillögu fræðslunefndar um viðbyggingu við leikskólann Hádegishöfða í Fellabæ. Í tillögu nefndarinnar er gert ráð fyrir að byggja tvær deildir við skólann.
Með þessari viðbyggingu verður leikskólinn fjögurra deilda skóli fyrir 80-90 nemendur. Börnum á leikskólaaldri fer hratt fjölgandi í sveitarfélaginu og er árgangur 2006 sá stærsti hingað til eða tæplega 70 börn. Næsta skólaár verða nemendur í leikskólunum fimm sem sveitarfélagið rekur ríflega 230 talsins.