Brúarásskóli stóð sig vel í Nýsköpunarkeppni

Í lokahófi Nýsköpunarkeppni grunnskólanema, sem fram fór í Grafarvogskirkju á laugardaginn í síðustu viku, var Brúarásskóla afhent bronsviðurkenning fyrir að vera einn þriggja afkastamestu grunnskóla landsins í innsendum hugmyndum í keppnina. Björn Óskar Þorsteinsson í Brúarásskóla hlaut einnig silfurverðlaun fyrir verkefni sitt Mörgæsahjól, í flokknum Orka og umhverfi.

Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda er keppni í nýsköpun fyrir alla aldurshópa grunnskólans um allt land. Markmið keppninnar er að gera einstaklingnum grein fyrir sköpunargáfu sinni og þroska hana í gegnum vinnu með eigin hugmyndir. Efla og þroska frumkvæði nemandans og styrkja þannig sjálfsmynd hans. Efla nýsköpunarstarf í grunnskólum og vekja athygli á hugviti barna í skólum og atvinnulífi. Keppnin var haldin í fyrsta skipti árið 1991 og er nú haldin í 18 sinn.

Í ár voru innsendar hugmyndir rúmlega 2700 talsins frá 60 grunnskólum víða um land. Þátttaka frá landsbyggðinni var áberandi í ár og er auknum áhuga grunnskóla af landsbyggðinni þakkað þeirri staðreynd að nú hefur í tvö ár verið greiddur ferðastyrkur í boði Iðnaðarráðuneytisins. Styrkur sem jafnar aðgengi barna af landsbyggðinni að viðburðum keppninnar.
 
Í vinnusmiðjuna, sem haldin var 5. og 6. september, mættu 44 hugmyndasmiðir á aldrinum 8-15 ára. Þessir einstaklingar komust í gegnum matsferli þar sem hugmyndir þeirra voru metnar með tilliti til raunsæi, hagnýti og nýnæmi. Það telst mikill heiður að komast í vinnusmiðjuna. Markmið vinnusmiðjunnar er að hver hugmyndasmiður hafi tækifæri til að útfæra hugmynd sína nánar undir leiðsögn leiðbeinenda, þar sem unnið er að því að útbúa líkön, frumgerðir, plaköt og annað sem börnin telja að lýsi hugmynd/uppfinningu sinni best. Í lok vinnusmiðjunnar fengu börnin þjálfun í að segja frá hugmyndum sínum, þjálfarar frá JCI buðu fram aðstoð sína í þeim efnum.

Björn Óskar Þorsteinsson, Brúarásskóla, er annar í 1. röð frá vinstri.

Vefsíða keppninnar