Breyttur útivistartími 1. september

Myndin er fengin af ljósmyndavefnum Pexels.com
Myndin er fengin af ljósmyndavefnum Pexels.com

Minnt er á að útivistartími barna og unglinga breytist 1. september næstkomandi.

Í barnaverndarlögum segir: „Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20:00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22:00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.“

Útivistartíminn gildir fyrir fæðingarárið, en ekki fæðingardag, og því gilda sömu reglur fyrir öll börn sem fædd eru á sama ári.

Hægt er að lesa ýmsar ástæður fyrir því að takmarka útivist barna og unglinga á heimasíðu Umboðsmanns barna. Þar er að auki áréttað að reglur um útivistartíma segir til um það hvað börn og unglingar mega vera lengi úti á kvöldin, en ekki hvað þau eiga að vera lengi úti. Foreldrar geta því hæglega sett sínar eigin reglur innan þess ramma sem reglurnar setja. Eftir 16 ára aldur er það foreldra, í samráði við ungmennin, að setja reglur um útivist.

Samkvæmt Embætti landlæknis er meðal svefnþörf barna og unglinga á bilinu 9-10 klukkustundir á nóttu. Í svefni hvílist líkaminn og endurnærist og er svefn bráðnauðsynlegur til að viðheilsa bæði líkamlegri og andlegri heilsu. Það er því alveg ljóst að nauðsynlegt er að hver einstaklingur fái nægan svefn til að geta lifað og starfað í samfélaginu okkar.

Stöndum saman og virðum útivistarreglurnar!