Breyttar áherslur sorphirðu í sveitarfélaginu

Í gær þann 10. desember skrifaði Fljótsdalshérað undir samning við Íslenska gámafélagið um sorphirðu í sveitarfélaginu. Samningurinn er til sjö ára og er afar hagstæður þar sem tilboð þeirra var 64% af kostnaðaráætlun útboðs.
Sorphirða kemur til með að breytast töluvert en komið verður upp svokölluðu þriggja tunnu kerfi og koma íbúar sveitarfélagsins til með að taka þátt í flokkun sorps. Skarphéðinn Smári Þórhallsson, héraðs – og umhverfisfulltrúi hjá Fljótsdalshéraði segir að markmiðið með breytingunum sé að fylgja eftir stefnu sveitarfélagsins í þessum málaflokki. Jafnframt sé mikilvægt að breyta framkvæmd á sorphirðu í takt við stefnumótun umhverfisráðuneytisins og Evrópubandalagsins. Þá segir hann að það megi búast við allt að 60% minna rúmmáli af sorpi sem sem komi til urðunar. Áætlað er að kerfið verði komið til framkvæmdar að fullu haustið 2009. Íslenska gámafélagið kemur til með að útvega íbúum í þéttbýli lífræna tunnu, endurvinnslutunnu og tunnu fyrir almennan úrgang. Í dreifbýlinu verður íbúum útvegaður búnaður til heimajarðagerðar ásamt endurvinnslutunnu og tunnu fyrir almennan úrgang. Öll heimili sveitarfélagsins fá ílát til flokkunar í upphafi og einnig sex mánaða skammt af pokum úr maís undir lífrænan úrgang. Íslenska gámafélagið fer síðan tvær ferðir á ári í dreifbýlið til að hirða heyrúlluplast. Þá verða gerðar umtalsverðar endurbætur á gámasvæði móttöku – og þjónustustöð.