Breki Steinn á menningarhátíð í Runavík

Breki Steinn Mánason verður fulltrúi Fljótsdalshéraðs á Menningarvikunni í Runavík sem fer fram 18. til 25. október. Runavík er vinabær Fljótsdalshéraðs og nokkur hefð hefur skapast fyrir því að sveitarfélagið sendi listamann á menningarvikuna. Í fyrra var það Ólöf Birna Blöndal sem sýndi þar málverk eftir sig. Breki Steinn, sem notast við listamannsnafnið Laser Life, leikur tónlist eftir sjálfan sig á tónleikum í Gulu smiðjunni í Runavík, en þar koma einnig fram tvær rokkhljómsveitir frá Færeyjum.

Breki Steinn, sem er 24 ára, lærði á rafgítar við tónskólann á Egilsstöðum í nokkur ár þegar hann var í grunnskóla og hefur ekki hætt að búa til og flytja tónlist síðan. Hann tók þátt í öllum tónlistartengdum viðburðum sem stóðu til boða í Menntaskólanum á Egilsstöðum þ.á.m. undirspili í hljómsveit Barkans og undirbúningi margra tónleika á vegum NME. Einnig hefur hann sótt námskeið í hljóðvinnslu á vegum Vegahússins og tekið þátt í tveimur hljóðsmiðjum á vegum L.ung.A. Breki Steinn flutti árið 2011 til Reykjavíkur til að fara í háskólanám í sálfræði.

Breki er lagahöfundur, gítarleikari og söngvari hljómsveitarinnar Gunslinger sem starfaði á árunum 2010-2012. Gunslinger gaf út plötuna Sleepless Knights árið 2011 og kom fram á Iceland Airwaves hátíðinni sama ár. Sama ár kom hljómsveitin fram á austfirsku hátíðunum Eistnaflugi og Vegareiði ásamt því að ferðast til Noregs og spila þar á Blablafestival í Sortland. Árið 2012 var sú ákvörðun tekin að Gunslinger færi í pásu svo hljómsveitarmeðlimirnir gætu einbeitt sér að námi og öðrum verkefnum. Síðan þá hefur Breki Steinn fengið útrás fyrir sköpunarþörfina með því að framleiða og gefa út raftónlist undir nafninu Laser Life.