Bréf til bjargar lífi

Stjórnvöld geta hunsað eitt bréf – þau hunsa ekki milljónir bréfa! Á hverju ári setja hundruð þúsunda einstaklinga, frá rúmlega 150 löndum og landsvæðum, nafn sitt á milljónir bréfa til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi og þrýsta á umbætur. Fjöldinn allur skrifar einnig stuðningskveðjur til þolenda mannréttindabrota og veita þeim þannig styrk og vissu um að umheimurinn hafi ekki gleymt þeim.

Það kann að vera auðvelt fyrir stjórnvöld að hunsa eitt bréf en þegar milljónir slíkra bréfa berast er erfitt að líta undan. Bréfin bera árangur. Bréfin bjarga lífi. 

Í rúm 50 ár hefur Amnesty International barist gegn mannréttindabrotum með pennann að vopni og á hverju ári eru samviskufangar leystir úr haldi, fangar hljóta mannúðlegri meðferð, þolendur pyndinga sjá réttlætinu fullnægt, fangar á dauðadeild eru náðaðir eða ómannúðlegri löggjöf er breytt. Á hverju ári eiga sér stað raunverulegar breytingar á lífi þolenda mannréttindabrota vegna undirskrifta ykkar og aðgerða. Gott dæmi um raunverulega breytingu á lífi þolanda mannréttindabrots er saga Moses Akatugba, ungs manns frá Nígeríu sem var pyndaður grimmilega og dæmdur til dauða með hengingu aðeins 16 ára gamall fyrir það eitt að stela þremur farsímum. Á síðasta ári þrýstu rúmlega 300.000 manns, í bréfamaraþoni samtakanna, á fylkisstjórann á óseyrum Nígerfljóts að náða Moses og í maí 2015 lét fylkisstjórinn undan. Moses er nú frjáls maður.

Íslendingar hafa ekki látið sitt eftir liggja á bréfamaraþoninu en á síðasta ári voru rúmlega 75.000 bréf og kort send utan, þar af 16.000 vegna Moses. Þátttaka var mjög góð á Egilsstöðum en við vonum að Austfirðingar geri enn betur í ár og fylki liði til varnar þolendum mannréttindabrota víðs vegar um heiminn.

Ekki láta þitt eftir liggja á aðventunni í ár í baráttunni fyrir betri heimi. Hjálpaðu til. Taktu þátt í bréfamaraþoni Íslandsdeildar Amnesty International á Egilsstöðum laugardaginn 12. desember á Jólakettinum Barra frá kl. 12. til 16. Þar geturðu brugðist við vegna 12 áríðandi mála sem þurfa á athygli þinni að halda. Í Menntaskólanum á Egilsstöðum verða nemendur með kort og bréf þessa vikuna sem hægt er að skrifa undir og á Bókasafni Héraðsbúa munu liggja frammi kort og bréf fyrir þá sem ekki komast á Jólaköttinn þann 12.12.
Bréf getur breytt lífi. Taktu þátt í bréfamaraþoninu með okkur.