- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Nú er menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, BRAS, að ljúka að þessu sinni. Eitt þeirra verkefna sem fram fór í 1. til 4. bekk Fellaskóla var gerð skúlptúra út frá ljósmynd. Undirbúningur verkefnisins hófst í byrjun september þar sem hópurinn fór í vettvangsferð yfir á Egilsstaði og skoðaði ýmis listaverk sem þar er að finna víða um bæinn. Þannig voru skúlptúrar Sölva Aðalbjarnarsonar skoðaðir, kíkt var á Hótel Hérað og þar sem börnin virtu fyrir sér hreindýrið hennar Aðalheiðar Eysteinsdóttur og síðan voru skoðuð ýmis listaverk sem eru staðsett í Dyngju.
Dagarnir 10.-12. september voru svo alfarið helgaðir hátíðinni þar sem byrjað var á því að fá fræðslu um undirstöðuatriði ljósmyndunar hjá Elsu Björgu ljósmyndara. Nemendur drógu sig svo í þriggja til fjögurra manna hópa út frá nöfnum ýmissa listamanna sem hver hópur fræddist aðeins um. Hóparnir fóru því næst út og tóku ljósmyndir úr næsta nágrenni skólans og hver hópur kom sér svo saman um eina ljósmynd til að skapa skúlptúra út frá.
Hver og einn nemandi skapaði svo sitt eigið listaverk úr efnivið úr ýmsum áttum og bjuggu að lokum til veggspjald með upplýsingum um listaverkið. Veggspjöldin eru til sýnis á Bókakaffi en skúlptúrarnir voru til sýnis í Fellaskóla á kynningarkvöld í fyrir foreldra.
Þessi vinna heppnaðist einstaklega vel og allir nemendur mjög áhugasamir í listsköpun sinni. Sköpunargleðinni eru greinilega engin takmörk sett.