Börn fædd árið 2006 fá bók að gjöf í bókasafninu

Bókasöfnin á Austurlandi ætla með styrk frá samfélagssjóði Alcoa Fjarðaáls að gefa öllum fjögurra ára börnum á Austurlandi bókina Stafróf dýranna eftir Halldór Á. Elvarsson. Fyrstu bækurnar voru afhentar 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu, þegar börn og foreldrar á Neskaupstað heimsóttu bókasafnið í Neskaupstað. Verkefnið er til tveggja ára og nær því til tveggja árganga og eru börnin um 300 sem fá þessa bókagjöf.

Bókasafn Héraðsbúa býður fjögurra ára börnum á Héraði í fylgd með foreldrum að koma í heimsókn á efstu hæð í Safnahúsinu og taka á móti bókargjöfinni núna í desembermánuði.

Markmið verkefnisins er að kveikja áhuga barna á lestri, kynna þeim leyndardóma bókasafnsins og hvetja foreldra til að lesa með börnum sínum.

"Það er trú mín að með því að lesa fyrir börn þá víkki sjóndeildarhringur þeirra og opni þeim dyr að miklum töfraheimi sem býr í bókum og sögum. Ég hef því alltaf reynt að gefa mér tíma til að lesa..." sagði Halldór, höfundur bókarinnar.

Óskar Þór Þráinsson, verkefnisstjóri og forstöðumaður bókasafnsins í Neskaupstað, segir að lestrarstundir foreldra og barna séu ekki bara góðar samverustundir heldur mikilvægar til þess að örva lestaráhuga. Lestraráhugi er nátengdur lesskilningi síðar og því er nauðsynlegt að hvetja foreldra til að lesa með börnum sínum. Þannig taka þeir virkan þátt í að efla málþroska og hljóðkerfisvitund barna sinna. Í þessu verkefni náum við til tveggja árganga á forskólaaldri á stóru landsvæði. Við vonumst til að það skapi umræðugrundvöll milli foreldra og tækifæri til þess að örva börnin og hvetja".

Bókasöfnin sem taka þátt í verkefninu eru: Bókasafnið í Neskaupstað, Bókasafnið á Eskifirði, Bókasafnið á Reyðarfirði, Bókasafn Fáskrúðsfjarðar, Bókasafn Stöðvarhrepps, Bókasafn Breiðdalshrepps, Bókasafn Djúpavogs, Bókasafn Héraðsbúa, Bókasafn Seyðisfjarðar og Bókasafn Vopnafjarðar.