Borgfirðingurinn Njáll Eiðsson þjálfari Hattar

Njáll Eiðsson hefur verið ráðinn þjálfari meistarflokks karla í knattspyrnu hjá Hetti næstu tvö árin. Það þarf ekki að kynna Njál fyrir Austfirðingum, enda uppalinn á Borgarfirði eystra, á Snotrunesi.

Njáll hefur þjálfað lið Einherja, ÍR, FH, KA, Víðis, ÍBV og Vals og náð góðum árangri. Höttur varð sigurvegari þriðju deildar síðasta sumar og leikur því í annarri deild næsta sumar en tvívegis hefur Njáll þjálfað í þeirri deild áður og í bæði skiptin komust liðin upp úr deildinni. Þetta voru Einherji og Víðir. Þá þjálfaði Njáll lið Vals árið 2004 þegar liðið sigraði 1. deildina með miklum yfirburðum og árið 1997 var hann þjálfari ÍR þegar liðið trggði sér sæti í úrvalsdeild. Hilmar Gunnlaugsson formaður rekstrarfélags Hattar segir ánægjulegt að fá Njál að félaginu, enda reyndur og farsæll þjálfari.  Hann segir að stjórn félagsins trúi því að liðið haldi nær öllum sínum leikmönnum á næsta sumri, auk þess sem til standi að efla liðið vegna komandi átaka.