Borgarafundur um Ormsteitið

Undirbúningur Ormsteitis er nú í fullum gangi. Hugmyndir, frumkvæði og þátttaka íbúanna skiptir miklu til að vel takist með hátíð sem þessa. Því er boðað til borgarafundur um undirbúning hátíðarinnar fimmtudaginn 2. júlí kl. 20, í Bragganum við Sláturhúsið. Stjórnendur Ormsteitis hvetja stjórnendur einstaklinga fyrirtækja, félagasamtök, saumaklúbba, danshópa, leikfélög, íþróttafélög, kvenfélög og karlaklúbba til að leggja hönd á plóg, sem aldrei fyrr, og taka með virkum hætti þátt í Ormsteitinu.

Í dreifibréfi sem sent hefur verið út til íbúa sveitarfélagsins kemur fram að enn vantar framkvæmdastjóra og aðstoðarmenn á aldrinum 12-18 ára til að sjá um Krakkamarkaðsdag og fegurðarsamkeppni gæludýra. Föstudaginn 14. ágúst vantar 50 manns á öllum aldri í Skrúðgöngu/Karnival. Þá vantar góðar saumakonur sem vilja vera með í að sauma karnivalbúninga undir stjórn þeirra Marks, Mandy og Guðjóns Sigvalda frá 15. júlí í um það bil einn mánuð, í „workshop“ í Sláturhúsinu. En þau áttu öll þátt í því að gera karnivalið svo glæsilegt á síðasta ári.
Föstudaginn 21. ágúst verða garðveislur um allt Hérað. Leitað er eftir hugmyndaríku fólki sem vill bjóða gestum og gangandi í heimsókn þennan dag. Til dæmis væri gaman að bjóða uppá ljóðalestur, lummur, línudans eða hvað svo sem mönnum dettur í hug! Þá vantar frískt fólk 12 – 20 ára sem vill læra að ganga á stultum og taka þátt á Hverfahátíð. Einnig væri spennandi að sjá fjallhresst fólk sem vill stofna Brenniboltafélag Fljótsdalshéraðs. Síðan er óskað eftir þátttakendum í súpu- (villibráðar) og brauðkeppni Ormsteitis 2009, skemmtilegu og hæfileikaríku fólki sem vill troða upp á Hreindýraveislunni um kvöldið laugardaginn 22. ágúst.

Í dreifibréfinu er vakin athygli Markaðsdögum Ormsteitis, sem haldnir verða í Bragganum við Sláturhúsið. Dagskrá markaðsdaganna er þannig:
Þriðjudagur 18. ágúst. Handverk, tombóla, uppskera, notað og nýtt, skransala, uppboð og fleira.
Fimmtudagur 20. ágúst. Fatahönnun, myndlist, handverk, notað og nýtt, gjörningar, smiðjur, prjónakaffihús og fleira
Laugardagur 22. ágúst. Allt milli himins og jarðar, uppskera, handverk, matvæli, skransala, notað og nýtt, snyrtivörur, tombóla, uppboð, happadrætti, andlitsmálning, naglamálun, hárgreiðsla og fleira sem fólk hefur fram að færa!

Skráning á Markaðsdaga Ormsteitis á borgarafundinum og hjá Heiðdísi Höllu á netfangið heiddishalla@gmail.com eða í síma 847 3085.

Því er beint til höfðingjanna frá 2008 að tilkynna sem fyrst um nýja höfðingja. Þeir sem ekki hafa tilkynnt nýja höfðingja eru áfram ábyrgir fyrir sínu hverfi þar til tilkynning hefur borist til Heiðdísar Höllu verkefnastjóra í síma 867 2357 og heiddishalla@gmail.com eða til Guðríðar framkvæmdastjóri Ormsteitis í síma 861 5590 og foss@simnet.is

Hægt er að fylgjast með undirbúningi dagskrárinnar á www.ormsteiti.is