Bókun bæjarráðs um efnahagsmál

Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs sem haldinn var mánudaginn 10. nóvember sl. var staða efnahagsmála til umræðu.
Þar var meðal annars rætt um stöðu atvinnumála innan sveitarfélagsins og hvaða aðgerða sveitarfélagið gæti mögulega tekið til.
Sverrir Albertsson, framkvæmdarstjóri Afls mætti á fundinn til þess að ræða málin frá sjónarhorni verkalýðsfélagsins. Þá var farið yfir mögulegar aðgerðir sem sveitarfélagið gæti farið í vegna væntanlegs atvinnuleysis og þá erfiðu fjárhagsaðstöðu sem mörg heimili standa frammi fyrir vegna þess.
Í kjölfarið á þeim umræðum gerði bæjarráð bókun þar sem það lagði áherslu á að stjórnvöld myndu tryggja stöðu atvinnuskapandi fyrirtækja ekki síður en heimila í landinu. Þá skoraði bæjarráð á ríkisvaldið að gera allt sem í þess valdi stæði til að tryggja áframhaldandi verkefni á þess vegum á svæðinu. Þau verkefni sem voru nefnd voru bygging hjúkrunarheimils á Egilsstöðum, vinna við Norðfjarðargöng, Norðausturveg til Vopnafjarðar, Borgarfjarðarveg, hringveg 1 í Skriðdal, hringveg 1 um Hornarfjarðarfljót, færslu hringvegar við miðbæ Egilsstaða og Upphéraðsveg.
Þá lagði bæjarráð áherslu á að Fljótsdalshérað myndi leggja sig fram við að tryggja lánsfé til að ljúka við viðbyggingu Grunnskólans á Egilsstöðum. Að síðustu bókaði bæjarráð að sveitarfélagið myndi stuðla að mannfrekum viðhaldsverkefnum og vonaði að hægt væri að fara á stað með frekari nýbyggingarframkvæmdir. Samhliða því verði horft til framtíðar og verði þau tækifæri nýtt sem best sem fælust í aukinni ferðaþjónustu, hefðbundnum og óhefðbundnum landbúnaði, uppbygginu menntunar og frumkvöðla- og nýsköpunarstarfi.