- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Bæjaráð Fljótsdalshérað fagnar því að Norðfjarðargöng skuli vera komin inn á samgönguáætlun með þeim hætti að framkvæmdir geti hafist strax á árinu 2013.
Jafnframt er því fagnað að samþykkt var breytingartillaga sem gerir ráð fyrir að undirbúningi og rannsóknum vegna Seyðisfjarðarganga verði hagað með þeim hætti að hægt verði að hefja framkvæmdir við jarðgöng undir Fjarðarheiði í kjölfar Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga.
Að sama skapi vekur það furðu að jafn mikilvægar samgöngubætur og lokaframkvæmdir við Skriðdal, um Öxi og um Berufjarðarbotn, auk stækkunar flughlaða við Egilsstaðaflugvöll, skuli hvorki fá úthlutað nauðsynlegu framkvæmdafé né ásættanlegri tímasetningu.
Einkum er þetta eftirtektarvert í ljósi þess að verulegt fjármagn umfram það sem ætlað er í umræddar framkvæmdir, er t.d. eyrnamerkt ferðamannaleiðum, þrátt fyrir þá áherslu sem Austfirðingar hafa á umliðnum misserum lagt á mikilvægi þessara framkvæmda fyrir búsetu og atvinnulíf. Einnig vekur það verulega óánægju að ný Lagarfljótsbrú, sem gert var ráð fyrir að væri lokið byggingu á á gildistíma síðustu samgönguáætlunar, skuli nú alveg vera horfin af áætlun.