Hljómsveitin Bloodgroup, sem að meginhluta er frá Egilsstöðum, stendur í stórræðum þessar vikurnar. Hún hefur haldið tónleika víða um heim, gaf út sína fyrstu plötu fyrir nokkrum dögum sem vakið hefur mikla athygli og hefur gert dreifingarsamning við erlent fyrirtæki.
Þrír meðlima hljómsveitarinnar eru frá Egilsstöðum, þau Halldór Kristján, Ragnar og Lilja Kristín Jónsbörn, einn frá Færeyjum, Janus Rasmussen og loks nýjasti meðlimurinn, DJ Benni B-Ruff frá Reykjavík.
Eins og fyrr segir gaf hljómsveitin út sína fyrstu plötu, Sticky Situation, 7. nóvember síðast liðinn. Tónleikar í tilefni af útgáfunni voru haldnir í Reykjvík, á Akureyri og á Egilsstöðum í lok síðustu viku.
Platan hefur fengið afbragðs dóma, t.d. fékk hún 4 stjörnur hjá Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum. Bloodgroup gefur hefur hana út sjálf á Íslandi, en eftir Airwaves hátíðina gerði hljómsveitin dreifingarsamning við fyrirtækið Artists Without A Label, sem hefur haft marga fræga listamenn á sínum snærum. Í framhaldi af því fékk Bloodgroup plötuna útgefna í iTunes verslununum, svo hægt er að nálgast hana um allan heim.
Hljómsveitin hefur verið að spila í bæði New York og Berlín á þessu ári og heldur til Englands í næstu viku til að spila í London, Liverpool og Nottingham. Á næsta ári er svo fyrirhugað að spila til dæmis í Hollandi, Danmörku og Þýskalandi.