Bjartsýni á framtíðina einkennir fjárhagsáætlun

Mótun nýs sveitarfélags, veruleg uppbygging, markviss stefnumótun og björt framtíðarsýn, einkennir fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs árið 2007.

Fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2007 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 6. desember síðastliðinn.  Áætlunin einkennist fyrst og fremst af mótun nýs sveitarfélags sem varð til við sameiningu þriggja sveitarfélaga á Héraði í lok árs 2004 ásamt verulegri uppbyggingu samhliða mikilli fólksfjölgun undanfarinna ára. Aukin umsvif og miklar framkvæmdir hafa óhjákvæmilega í för með sér aukin útgjöld í einstökum liðum.  Bæjarstjórn hefur sett sér skýr markmið með nýrri stefnu sem samþykkt var á árinu 2006 og framtíðarsýnin er björt.  Lykilþættir í stefnu sveitarfélagsins eru þekking, þjónusta og velferð.
Íbúaþróun
Íbúar Fljótsdalshéraðs í árslok 2005 voru 3.905 (skv. Hagstofu Íslands) og fjölgaði þeim um 541 á milli ára.  Á árinu 2006 stefnir íbúafjöldinn í að verða 4.350 og hefur þá fjölgað um 445 á árinu.  Á árinu 2007 má reikna með að íbúum fækki nokkuð enda framkvæmdum við Kárahnjúka að ljúka og áætlað að íbúar í árslok 2007 verði um 3.760.  Þrátt fyrir fækkun íbúa í sveitarfélaginu öllu þá er íbúafjölgun í þéttbýli sveitarfélagsins á árinu 2006 áætluð um 300 og á árinu 2007 um 400 manns, sem telst varanleg fjölgun á því svæði.

Tekjur
Fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2007 gerir ráð fyrir að heildartekjur bæjarsjóðs og stofnana sveitafélagsins verði 2.224 milljónir króna. Þetta er lækkun upp á rúmar 1.500 þús. kr. á milli ára, ef miðað er við útkomuspá ársins 2006. Af heildartekjum eru skatttekjur áætlaðar 1.390 milljónir króna, eða 62% og framlag úr Jöfnunarsjóði 243 milljónir, eða 11%.
Rekstrargjöld samstæðunnar án fjármagnsliða eru áætluð alls 2.059 milljónir króna og fjármagnsliðir eru samtals 164 milljónir króna.  Samantekin niðurstaða er því jákvæð um 165 milljónir króna án fjármagnsliða.

Útgjöld
Af einstökum málaflokkum fara mest útgjöld til fræðslu- og uppeldismála en þar er gert ráð fyrir útgjöldum upp á rúmar 940 milljónir króna, sem eru tæp 58% af rekstrargjöldum bæjarfélagsins. Til æskulýðs- og íþróttamála er áætlað að fari rúmar 180 milljónir króna, félagsþjónustunnar um 103 milljónir og áætluð útgjöld til menningarmála eru um 60 milljónir króna.

Helstu fjárfestingar
Fjárfestingar ársins eru áætlaðar rúmar 870 milljónir króna.  Fjárfestingar á áætlun Fljótsdalshéraðs eru m.a. bygging félagsaðstöðu fyrir eldri borgara fyrir um 140 milljónir króna, stækkun leikskólans Skógarlands fyrir um 50 milljónir króna, hlutur sveitarfélagsins í nýrri reiðhöll að upphæð kr. 20 milljónir króna og nýr gervigrasvöllur í Fellabæ fyrir um 150 milljónir króna. Nýbygging gatna í sveitarfélaginu er áætlað að kosti

rúmar 190 milljónir króna, en þar koma tekjur af gatnagerðargjöldum á móti. Framkvæmdir við hita- og vatnsveitu eru áætlaðar um 135 milljónir króna og fráveitu 38 milljónir króna.  Fjárfestingar vegna kaups á landi og framkvæmdir á miðbæjarsvæði á Egilsstöðum er áætlaðar 330 milljónir króna.
Gert er ráð fyrir að tekin verði ný langtímalán að upphæð 395 milljónir króna til að standa straum af kostnaði við fjárfestingar.

Mótun nýs sveitarfélags og mikil uppbygging
Verkefni stjórnenda Fljótsdalshéraðs hafa á síðustu árum verið ærin við að byggja upp kröftugt og nútímalegt sveitarfélag þar sem íbúarnir búa við góða þjónustu, greiðar samgöngur og fjölskylduvænt umhverfi. 

Fljótsdalshérað er landstærsta sveitarfélag landsins og því er mikilvægt að öll samskipti gangi sem greiðast fyrir sig. Leitast hefur verið við að upplýsa íbúana á sem bestan hátt um allar breytingar, starfsstöðvar sveitarfélagsins eru sítengdar sameiginlegu upplýsingarkerfi til þæginda og öryggis fyrir starfsfólkið. Bæjarskrifstofur eru á þremur stöðum í sveitarfélaginu, á Egilsstöðum, í Fellabæ og á Brúarási.

Eitt af stærstu verkefnum komandi árs og m.a. í framhaldi af sameiningu sveitarfélaganna þriggja, sem nú mynda Fljótsdalshérað, er vinna að gerð nýs aðalskipulags fyrir sveitarfélagið. Fjölmörg önnur verkefni á sviði skipulagsmála og framkvæmda eru í vinnslu, svo sem skipulag og uppbygging miðbæjar. Uppbygging og vöxtur sveitarfélagsins er mikill, fólksfjölgun kallar á framkvæmdir við ný íbúðarsvæði, nýjar þjónustustofnanir og aðstöðu fyrir ný fyrirtæki. Auk nýframkvæmda á árinu 2007 verður eftir sem áður unnið markvisst að viðhaldi og endurbótum á húsnæði  og umhverfi sveitarfélagsins, þannig að ásýnd þess verði snyrtileg, hvort heldur er á opnum svæðum eða lóðum stofnana.

Stækkun leikskóla, aukin þjónusta við aldraða, íbúa af erlendum uppruna og barnafjölskyldur
Á árinu 2007 verður unnið að stækkun nýs og glæsilegs fjögurra deilda leikskóla við Skógarlönd á Egilsstöðum í sex deildir en í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að ein deild verði strax tekin í notkun á árinu.  Þjónusta við eldri borgara verður efld m.a. með ferli- og matarþjónustu.  Sérstök fjárveiting hefur verið samþykkt til að bæta þjónustu við íbúa af erlendum uppruna.  Þátttökugjöld til barna sem stunda íþrótta- og æskulýðsstarf verða niðurgreidd.  Almenningssamgöngur verða efldar m.a. með akstri milli þéttbýlisstaðanna Egilsstaða og Fellabæjar.  Rekstur Vegahússins, menningarmiðstöðvar ungs fólks hefur verið tryggður á árinu.  Aukið verður við viðhald íþrótta- og opinna svæða.  Styrkir verða auknir vegna uppbyggingar íþróttafélaga.  Auknum fjárveitingum verður varið til að bæta umhverfisvitund og fjármagn verður lagt í uppbyggingu og rekstur háskólaseturs.