Sú hefð hefur skapast síðustu ár að á þorrablóti Egilsstaða er afhentur farandgripurinn Þorrinn sem Hlynur á Miðhúsum hefur skorið út. Í ár voru heiðruð hjónin Bjarni og Sigurbjörg sem kennd eru við verslunina Skóga.
Ræðan sem flutt var á Þorrablótinu á bóndadag fylgir hér.
"Góðir þorrablótsgestir.
Í 21. sinn er Þorrinn afhentur á Þorrablóti Egilsstaða. Þorrinn er afhentur þeim sem þykir hafa auðgað samfélagið, bætt þjónustu við íbúa þess eða á einhvern hátt unnið samfélaginu gagn.
Handhafar Þorrans í ár stunduðu um áratuga skeið verslunarrekstur og þjónustuðu íbúa Egilsstaða og raunar Austurlands alls á margvíslegan hátt. Þorrablótsnefndin 2018 hefur ákveðið að veita Sigurbjörgu Þórarinsdóttur og Bjarna Kristmundssyni Þorrann í ár.
Á sjöunda áratugnum byrjuðu hús að rísa við göturnar Dynskóga og Bláskóga og var hús Bjarna og Sigurbjargar að Bláskógum 9 eitt af þeim fyrstu. Þar í bílskúrnum hófu þau hjón verslunarrekstur í smáum stíl árið 1976, fyrst með leikföng og fleira smálegt en snéru sér síðan að fataverslun.
Í bílskúrnum var verslunin fyrstu þrjú árin en vorið 1979 var hún flutt í rúmgott verslunarhúsnæði sem þau hjón höfðu byggt að Dynskógum 4 og þar opnaði verslunin Skógar.
Í Skógum voru á boðstólum íþrótta-og sportvörur og fjölbreytt úrval fatnaðar. Þau hjón ráku verslun sína í rúm 40 ár og stóð Sigurbjörg flesta daga við búðarborðið og annaðist auk þess innkaup og rekstur. Oft mátti sjá Bjarna við skrifborðið í lítilli skrifstofu inn af versluninni.
Bjarni og Sigurbjörg eru gott dæmi um það unga eljusama fólk sem kom úr nærsveitum og settist að í hinu unga þorpi á Egilsstöðum. Bjarni lærði bifvélavirkjun og starfaði framan af við fag sitt, en reyndist líka liðtækur með hamarinn og var aðalmaðurinn í byggingu þeirra þriggja húsa sem þau hjónin hafa byggt á Skógatorfunni, þ.e. íbúðahúsið að Bláskógum 9, - verslunarhúsið við Dynskóga og Bláskóga 1 sem er núverandi heimili þeirra hjóna.
Það er þorrablótsnefndinni mikil ánægja að fá að heiðra þau hjón með þessum hætti en vegna heilsubrests Bjarna mun farandgripurinn, sem Hlynur Halldórsson á Miðhúsum skar út, verða afhentur á sunnudaginn kemur, á hjúkrunarheimilinu Dyngju."
Takk fyrir!
Ábending þín er móttekin
Lyngási 12, 700 Egilsstaðir
fljotsdalsherad@fljotsdalsherad.is
kt: 481004-3220
Opnunartímar skrifstofu
8:00 - 15:45 alla virka daga
Persónuverndarfulltrúi Fljótsdalshéraðs hefur eftirlit með að farið sé að persónuverndarlögum í starfsemi sveitarfélagsins
Með íbúagátt er íbúarnir komnir í beint samband við sveitarfélagið sitt með rafrænum hætti.
Þjónustugátt fyrir kjörna fulltrúa Fljótsdalshéraðs.
Upplýsinga- og þjónustuveita ríkis og sveitarfélaga. Hér er að finna upplýsingar um opinbera þjónustu, aðgang að stórum hluta eyðublaða hins opinbera o.fl.