- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs 3. desember var opnaður nýr íbúalýðræðisvefur sem ber heitið Betra Fljótsdalshérað og hægt er að fara inn á í geng um hnapp á heimasíðu sveitarfélagsins.
Betra Fljótsdalshérað er samráðsvettvangur á netinu, þar sem íbúum sveitarfélagsins gefst tækifæri til að setja fram hugmyndir um málefni er varða þjónustu og rekstur þess. Vettvangurinn er opinn öllum til skoðunar og til þátttöku gegn skráningu og samþykki notendaskilmála.
Ákveðnar reglur gilda um þátttöku í umfjöllun á Betra Fljótsdalshérað og er þær að finna á þeim vef.
Skráðir notendur taka þátt með því að setja fram hugmyndir, skoða hugmyndir annarra, rökstyðja mál, segja skoðun sína eða gefa hugmyndum og rökum vægi með því að styðja þær eða vera á móti þeim.
Um leið og notandi setur fram hugmynd á Betra Fljótsdalshérað, er litið á hana sem sameign íbúa sveitarfélagsins, enda getur upphafleg hugmynd tekið breytingum í því samráðsferli sem þessi vettvangur býður upp á. Fljótsdalshérað áskilur sér rétt til að nota þær hugmyndir sem fram koma á þeim samráðsvettvangi sem Betra Fljótsdalshérað er.
Við notkun á Betra Fljótsdalshéraði er mikilvægt að hafa í huga að Fljótsdalshérað er stjórnvald sem starfar eftir lögum og reglum og hefur ákveðið verksvið. Í ljósi þess er ekki sjálfgefið að unnt verði að taka allar hugmyndir til formlegar meðferðar.
Fljótsdalshérað skuldbindur sig þó til að taka hugmyndir af Betra Fljótsdalshéraði til formlegrar meðferðar á þann hátt að mánaðarlega fara tvær efstu hugmyndirnar til vinnslu hjá viðkomandi nefnd eða ráði (þær sem fá mesta vægið). Hægt verður að flokka hugmyndirnar fyrirfram eftir efnisflokkum og innihaldi þeirra.
Þetta gerist þannig að klukkan 12.00, síðasta virka dag hvers mánaðar, eru tvær efstu hugmyndirnar á Betra Fljótsdalshérað færðar á sérstakt svæði á Betra Fljótsdalshérað. Þar með er ekki lengur hægt að gefa þeim vægi, þ.e, styðja þær, eða vera á móti þeim. Þessar hugmyndir, með rökum og umræðu um þær, eru teknar til umfjöllunar hjá viðkomandi nefnd eða ráði eins fljótt og auðið er. Stefnt skal að því að umfjöllun fari fram innan mánaðar. Sumarfrí nefnda geta þó leitt til þess að lengri tími líður áður en formleg umfjöllun fer fram. Aðrar hugmyndir, sem ekki eru teknar til umfjöllunar hjá Fljótsdalshéraði, eru hins vegar áfram opnar til umræðu hjá notendum Betra Fljótsdalshéraðs.
Hugmyndir sem fá minna vægi er ætlað að vera ráðgefandi fyrir kjörna fulltrúa og stjórnendur sveitarfélagsins.
Hugmynd sem fer til meðferðar í stjórnsýslu Fljótsdalshéraðs er lögð fram í nafni Betra Fljótsdalshéraðs sem lýðsprottin hugmynd.
Viðkomandi nefnd fjallar um hugmyndir af Betra Fljótsdalshéraði og tekur hana til afgreiðslu sem samræmist þeim heimildum sem hver nefnd hefur. Á Betra Fljótsdalshéraði er gerð grein fyrir málsmeðferðinni svo og afgreiðslu nefndar þegar hún liggur fyrir.
Vefurinn Betra Fljótsdalshérað er rekinn af sjálfseignarstofnuninni Íbúar samráðslýðræði, í samstarfi við sveitarfélagið og svipar mjög til hliðstæðra vefja, svo sem Betri Reykjavík og Betri Hafnarfjörður.
Það er von bæjarstjórnar að Betra Fljótsdalshérað auki enn frekar á aðkomu íbúa að ákvarðanatöku um rekstur, þróun og þjónustu sveitarfélagsins. Jafnframt hvetur bæjarstjórn íbúana til að nýta sér vefinn og fara þar að settum reglum í skrifum og tillögugerð.