Í dag var tilkynnt um beint flug á milli London (Gatwick) og Egilsstaða sem hefst næsta sumar. Flogið verður tvisvar í viku á milli áfangastaðanna en það er breska ferðaskrifstofan Discover the World sem skipuleggur flugið.
Tilkynnt var um flugið á fundi sem haldinn var í flugstöðinni á Egilsstöðum. Það mun hefjast 28. maí 2016 og ljúka 24. september 2016, með möguleika á vetrarflugi ef vel tekst til. Þá var líka tilkynnt um fyrirhugað flug milli Egilsstaða og Keflavíkur sem nýtast mun farþegum þessarar flugleiðar.
Á fundinum var jafnframt undirritaður samstarfssamningur á milli Discover the World annars vegar og Fjallasýnar og Tanna Travel, ferðaþjónustufyrirtækja á Norðausturlandi, hins vegar en þau munu annast markaðssetningu og sölu á flugi fyrir heimamarkaðinn.
Discover the World er ein stærsta ferðaskrifstofa heims sem sérhæfir sig í sölu ferða til Íslands og hefur um þrjátíu ára reynslu af slíkum ferðum. Viðræður á milli aðila á Austurlandi og Discover the World hófust fyrir um ári síðan. Í kjölfarið komu fulltrúar ferðaskrifstofunnar til Austurlands að kynna sér aðstæður með það að markmiði að gera landshlutann að spennandi áfangastað fyrir ferðamenn. Sala hefst á ferðum Discover the World til Austurlands á næstu vikum.
Beint flug á milli Egilsstaða og London verður mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á svæðinu sem og fyrir landið allt. Efling alþjóðlegs flugs um Egilsstaðaflugvöll er eitt af sóknaráætlunarverkefnum landshlutans, slíkar fyrirætlanir eiga sér langa sögu á Austurlandi en aðstæður nú eru sérstaklega hagstæðar. Skiptir þar mestu sá mikli fjöldi ferðamanna sem kemur til Íslands, fyrirsjáanleg fjölgun þeirra á næstu árum og áherslur stjórnvalda á að dreifa þeim betur um landið. Nánari upplýsingar um flugið má sjá hér.
Á myndinni sem fylgir fréttinni eru Díana Mjöll Sveinsdóttir hjá Tanna Travel, Clive Stacy hjá Discover the World og Rúnar Óskarsson hjá Fjallasýn.
Takk fyrir!
Ábending þín er móttekin
Lyngási 12, 700 Egilsstaðir
fljotsdalsherad@fljotsdalsherad.is
kt: 481004-3220
Opnunartímar skrifstofu
8:00 - 15:45 alla virka daga
Persónuverndarfulltrúi Fljótsdalshéraðs hefur eftirlit með að farið sé að persónuverndarlögum í starfsemi sveitarfélagsins
Með íbúagátt er íbúarnir komnir í beint samband við sveitarfélagið sitt með rafrænum hætti.
Þjónustugátt fyrir kjörna fulltrúa Fljótsdalshéraðs.
Upplýsinga- og þjónustuveita ríkis og sveitarfélaga. Hér er að finna upplýsingar um opinbera þjónustu, aðgang að stórum hluta eyðublaða hins opinbera o.fl.