- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Í dag var tilkynnt um beint flug á milli London (Gatwick) og Egilsstaða sem hefst næsta sumar. Flogið verður tvisvar í viku á milli áfangastaðanna en það er breska ferðaskrifstofan Discover the World sem skipuleggur flugið.
Tilkynnt var um flugið á fundi sem haldinn var í flugstöðinni á Egilsstöðum. Það mun hefjast 28. maí 2016 og ljúka 24. september 2016, með möguleika á vetrarflugi ef vel tekst til. Þá var líka tilkynnt um fyrirhugað flug milli Egilsstaða og Keflavíkur sem nýtast mun farþegum þessarar flugleiðar.
Á fundinum var jafnframt undirritaður samstarfssamningur á milli Discover the World annars vegar og Fjallasýnar og Tanna Travel, ferðaþjónustufyrirtækja á Norðausturlandi, hins vegar en þau munu annast markaðssetningu og sölu á flugi fyrir heimamarkaðinn.
Discover the World er ein stærsta ferðaskrifstofa heims sem sérhæfir sig í sölu ferða til Íslands og hefur um þrjátíu ára reynslu af slíkum ferðum. Viðræður á milli aðila á Austurlandi og Discover the World hófust fyrir um ári síðan. Í kjölfarið komu fulltrúar ferðaskrifstofunnar til Austurlands að kynna sér aðstæður með það að markmiði að gera landshlutann að spennandi áfangastað fyrir ferðamenn. Sala hefst á ferðum Discover the World til Austurlands á næstu vikum.
Beint flug á milli Egilsstaða og London verður mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á svæðinu sem og fyrir landið allt. Efling alþjóðlegs flugs um Egilsstaðaflugvöll er eitt af sóknaráætlunarverkefnum landshlutans, slíkar fyrirætlanir eiga sér langa sögu á Austurlandi en aðstæður nú eru sérstaklega hagstæðar. Skiptir þar mestu sá mikli fjöldi ferðamanna sem kemur til Íslands, fyrirsjáanleg fjölgun þeirra á næstu árum og áherslur stjórnvalda á að dreifa þeim betur um landið. Nánari upplýsingar um flugið má sjá hér.
Á myndinni sem fylgir fréttinni eru Díana Mjöll Sveinsdóttir hjá Tanna Travel, Clive Stacy hjá Discover the World og Rúnar Óskarsson hjá Fjallasýn.