Bæjastjórn bókar vegna samgönguáætlunar

Lagarfljótsbrúin. Ljósmyndari Gunnlaugur Hafsteinsson
Lagarfljótsbrúin. Ljósmyndari Gunnlaugur Hafsteinsson

Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs þann 4. maí 2016 var eftirfarandi bókun gerð.

Umsögn um drög að samgönguáætlun 2015 – 2018.

Bæjarstjórn tekur undir með bæjarráði og ítrekar fyrri bókanir um að Alþingi samþykki hið fyrsta samgönguáætlun til fjögurra ára. Bæjarstjórn lýsir hins vegar yfir þungum áhyggjum af því að í núverandi drögum að samgönguáætlun, vantar gífurlega fjármuni til þess að standa með eðlilegum hætti að viðhaldi og uppbyggingu núverandi samgöngukerfis landsins. Meðan að svo er liggur fyrir að nánast ómögulegt er að ráðast í bráðnauðsynlegar nýframkvæmdir í samræmi við þau markmið sem fyrirliggjandi áætlun leggur þó til grundvallar. Ljóst er til dæmis að við núverandi aðstæður verður ekki séð að fjármagni verði veitt til gerðar nýrrar brúar yfir Lagarfljót á næstu árum og jafnvel áratugum, auk þess sem töf getur orðið á öðrum nauðsynlegum framkvæmdum, svo sem vegi yfir Öxi og göngum undir Fjarðarheiði. Það er algjörlega óásættanlegt og skorar bæjarstjórn á Alþingi að tryggja málaflokknum nauðsynlegt fjármagn til næstu ára enda stendur núverandi staða uppbyggingu landsbyggðanna alvarlega fyrir þrifum.

Þá telur bæjarstjórn að nokkuð skorti upp á að framlög til rekstrar, viðhalds og nýframkvæmda á flugvöllum séu í samræmi við þörf og mikilvægi þeirra í samgöngukerfinu. Í ljósi stefnumörkunar stjórnvalda um að byggðar verði upp fleiri fluggáttir inn í landið verður að tryggja nægjanlegt fjármagn til Egilsstaðaflugvallar. Bæjarstjórn bendir t.a.m. á að framlög sem ætluð eru til að klæða flugbrautina á Egilsstöðum duga ekki til að framkvæma verkið og að þörf er á auknum fjármunum í ýmis verkefni í tengslum við rekstur flugvallarins.