- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs í gær, miðvikudaginn 3. febrúar, voru málefni svæðisútvarpsstöðva Ríkisútvarpsins til umræðu og sú ákvörðun útvarpsstjóra að leggja þær niður. Á fundinum var eftirfarandi bókun samþykkt:
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs bendir á að með þessari samþykkt RUV er verið að kippa Austurlandi aftur um áratugi varðandi ljósvakafjölmiðlun og enn og aftur verið að draga úr opinberri þjónustu í fjórðungnum.
Að öðru leyti tekur bæjarstjórn undir eftirfarandi bókun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem lýsir yfir mikilli óánægju með ákvörðun yfirstjórnar RÚV að leggja niður starfsstöðvar svæðisútvarpa þeirra landshlutastöðva, sem nú hefur verið tilkynnt um. Sú lágmarksþjónusta, sem boðuð hefur verið, er algjörlega óásættanleg og ber vott um mikið metnaðarleysi "útvarps allra landsmanna", sem þeim er gjört að greiða nefskatt til.
Fyrir liggur að svæðisútvarpsstöðvarnar hafa haft verulegar tekjur af auglýsingum, þar sem fyrirtæki og einstaklingar á landsbyggðinni hafa nýtt sér þennan miðil í verulegum mæli. Þeim tekjum er nú kastað á glæ að stórum hluta.
Svæðisútvörp hafa aukið á samkennd íbúa fjórðunganna, en jafnframt verið miðlar, sem fjallað hafa um mismunandi áherzlur milli svæða og opnað á umræðu um fjölmörg hagsmunamál íbúanna. Umfram allt hefur þar verið til staðar umfjöllun um hið fjölmarga jákvæða starf, sem unnið er í öllum fjórðungum og sýnileiki byggðarlaganna því verið meiri, en hægt er að sjá að verði eftir breytinguna.
Stjórn RÚV er hvött til að sjá til þess að undið verði ofan af framangreindri ákvörðun og séð til þess að hún verði dregin til baka. Einnig er skorað á ráðherra mennta- og menningarmála að láta málið til sín taka.
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs óskar eftir að útvarpsstjóri og formaður stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. komi til fundar við bæjarstjórn vegna málsins.