Bæjarstjórn undrast hugmyndir um lokun Rvk-flugvallar

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs segir fyrirhugaða lokun Reykjavíkurflugvallar á komandi árum vekja furðu og ítrekar fyrri athugasemdir varðandi lokunina.  Bæjarstjórn hvetur íbúa Fljótsdalshéraðs að láta í ljósi skoðun sína á málinu og bendir á undirskriftarsöfnun sem er í gangi og hvetur jafnframt önnur sveitarfélög  og hagsmunaaðila til hins sama.

Á fundi bæjarstjórnar í gær var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða
 „Með vísan til auglýsts aðalskipulags Reykjavíkurborgar ítrekar bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs fyrri athugasemdir við fyrirhugaða lokun Reykjavíkurflugvallar á komandi árum.
Það viðhorf sem kemur fram í auglýstri tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, sem og í viðtölum við forsvarsmenn borgarinnar, vekur furðu þegar haft er í huga það hlutverk sem Reykjavíkurborg er ætlað sem höfuðborg landsins. Gangi hugmyndir borgaryfirvalda eftir er eðlilegt að stjórnvöld taki til endurskoðunar staðsetningu stofnana ríkisins sem hingað til hefur þótt eðlilegt að væru staðsettar í höfuðborg landsins.Hér er í húfi tenging landsbyggðarinnar við nær alla opinbera þjónustu sem staðsett er í höfuðborginni, auk þess sem Reykjavíkurflugvöllur er lífæð sjúkraflugs og órjúfanlegur hluti af uppbyggingarhugmyndum um byggingu hátæknisjúkrahúss á Landspítalareitnum.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hvetur önnur sveitarfélög sem og hagsmunaaðila til að koma á framfæri athugasemdum vegna umrædds auglýsts aðalskipulags.

Bæjarstjórn hvetur íbúa Fljótsdalshéraðs til að láta skoðun sína á málinu í ljós og bendir meðal annars á undirskriftasöfnun þá sem nú er í gangi vegna framtíðar Reykjavíkurflugvallar.“