Bæjarstjórn sammála ungmennaráði

“Allt of víða er rusl á víð og dreif í kringum fyrirtæki og atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu”, segir í bókun ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs sem bæjarstjórn tók undir á fundi sínum þann 21. mars.

Í bókun ungmennaráðsins, frá 1. mars, kemur jafnframt fram að ráðið “hvetur eigendur og starfsfólk fyrirtækja til að fjarlægja óþarfa drasl og snyrta í kringum sig. Ungmenaráð er sammála um að ungt fólk getur gengið betur um umhverfi sitt en það gerir í dag. Ungmennaráð hvetur ungt fólk til að ganga betur um og henda ekki rusli á víðavangi. Jafnframt eru foreldrar hvattir til að sýna gott fordæmi. Þá er lagt til við skólayfirvöld í sveitarfélaginu að þau auki umhverfis- og umgengnisfræðslu og umræðu í skólunum.” Undir þetta allt tekur bæjarstjórn á fundi sínum.

Í undirbúningi er mikið umgengnisátak á vegum umhverfis- og náttúruverndarnefndar þar sem kallað verður eftir samvinnu við íbúa og fyrirtæki. Vonast er eftir góðri þátttöku í átakinu sem eigi eftir að skila sér með betri umgengni allra og snyrtilegri frágangi á atvinnulóðum.