- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Á fundi bæjarstjórnar Fljótdalshéraðs sem haldinn var miðvikudaginn 16. nóvember var lögð fram eftirfarandi ályktun sem samþykkt var samhljóða.
Hugmyndir að breytingum á starfsemi Vegagerðarinnar á Fljótsdalshéraði
Bæjarstjórn átelur það harðlega að enn einu sinni skuli vera uppi hugmyndir, af hálfu Vegagerðarinnar, um að skerða þá þjónustu sem veitt er á Austurlandi. Starfsstöð Vegagerðarinnar í Fellabæ er vel staðsett ef litið er til þess vegasvæðis sem henni er ætlað að sinna. Í sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði einu nemur vegakerfið um 900 km (1.059 km eru alls í umsjón þjónustustöðvarinnar í Fellabæ). Er starfstöðin því ein af fjórum starfsstöðvum Vegagerðarinnar sem eru með flesta vegkílómetra í sinni umsjá. Einnig má geta þess að á þjónustusvæði starfsstöðvarinnar í Fellabæ er stór hluti vegakerfisins malarvegir sem kalla á mikið eftirlit og viðhald.
Því er með öllu óásættanlegt að þjónustan verði skert m.a. með því að sú verkstjórn sem sinnt hefur verið á svæðinu verði lögð niður. Bæjarstjórn mótmælir hugmyndum um að leggja niður þjónustumiðstöð Vegagerðarinnar í Fellabæ enda er þar með veruleg hætta á að sú mikilvæga reynsla og þekking sem byggð hefur verið upp í áranna rás glatist. Áður hefur verið bent á leiðir til eflingar á starfsemi Vegagerðarinnar á Fljótsdalshéraði, t.a.m. að sveitarfélagið taki yfir umsjón hluta verkefnanna og leggur bæjarráð til að Vegamálastjóri komi hið fyrsta til fundar með fulltrúum Fljótsdalshéraðs til að ræða fyrirkomulag þessara mála í framtíðinni. Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs leggur áherslu á þann vilja að eiga jákvæð og trúverðug samskipti við Vegagerðina enda eðlilegt að svo sé á milli einnar af veigameiri stofnunum ríkisins og öflugasta þjónustukjarna Austurlands, þaðan sem allar leiðir greinast til annarra byggðarlaga í fjórðungnum.