Bæjarstjórn mótmælir boðuðum niðurskurði til HSA

Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs 6. október var til umræðu boðaður niðurskurður á fjárlögum ríkisins árið 2011 til heilbrigðismála á starfssvæði HSA. Á fundinum var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða: Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs mótmælir harðlega boðuðum niðurskurði til HSA, sem einsýnt er að leiðir af sér fjöldauppsagnir og stórkostlega skerta þjónustu við íbúa í þessum landsfjórðungi. Bæjarstjórn telur sérstaklega ámælisvert að ekkert samráð hefur verið haft við forsvarsmenn sveitarfélagann og HSA við mótun tillagnanna. Bæjarstjórn krefst þess að heilbrigðisyfirvöld og fjárlaganefnd endurskoði tillöguna og hafa í huga öryggissjónarmið sjúklinga og byggðalegar afleiðingar slíkrar ákvörðunar.