Bæjarstjórn gagnrýnir utanvegaakstur

Á fundi umhverfis- og héraðsnefndar og bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs hafa að undanförnu verið rædd málefni sem tengjast utanvegaakstri, í framhaldi af fréttaflutningi Morgunblaðsins um utanvegaakstur á hálendinu norðan Vatnajökuls.

Bæjarstjórn og umhverfis- og héraðsnefnd gagnrýndu í umfjöllun sinni óábyrgt aksturslag og umhverfisspjöll líkt og það sem umrædd frétt sýnir. Bent er á að í 17. grein laga um náttúruvernd nr. 44/1999 stendur: Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Jafnframt segir í 2. grein reglugerðar nr. 619/1998 um akstur í óbyggðum: Allur akstur utan vega og merktra slóða þar sem náttúruspjöll geta af hlotist er bannaður.

Varðandi landssvæði innan marka Fljótsdalshéraðs er bent á að í aðalskipulagi sveitarfélagsins 2008-2028 er þemakort þar sem að allir vegslóðar utan þjóðvega og almennra vega eru skilgreindir. Bæjarstjórn minnir á að vegaslóðar sem sýndir eru á kortinu liggja um eignarlönd og sumir hverjir hafa verið lagðir af landeigendum fyrir eigin reikning. Því ber þeim sem ætla sér að aka eftir þessum slóðum að afla áður leyfis frá viðkomandi landeignum. Þemakortið var unnið í samstarfi við hagsmunaaðila á svæðinu. Bæjarstjórn áréttar að þar liggur fyrir sú afstaða bæjarstjórnar að vegslóðar sem ekki eru á því korti séu ekki vegir og því óheimilt að aka á slóðum sem ekki eru á því korti.

Skarphéðinn Þórisson tók myndina, en hún er tekin af vef mbl.is