Bæjarstjórn bókar vegna samgöngumála

Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs þann 1. nóvember sl. var eftirfarandi bókun gerð:

201710002 - Samgöngumál
Í bæjarráði Fljótsdalshéraðs var lagt fram svarbréf frá Vegagerðinni, þar sem fram kemur að þar sem hvorki liggi fyrir fjárlög komandi árs, né endurskoðuð samgönguáætlun, geti Vegagerðin ekki staðfest verkefni vegna uppbyggingar þjóðvegar í botni Skriðdals og heilsársvegar um Öxi. Svarbréf hefur hins vegar ekki borist frá ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn telur þetta svar Vegagerðarinnar umhugsunarefni, vegna yfirlýsinga ráðherra samgöngumála á Samgönguþingi og aðalfundi SSA á liðnum vikum, þess efnis að á næsta ári yrði farið í uppbyggingu þjóðvegar í botni Skriðdals, sem og að heilsársvegur um Öxi væri forgangsverkefni í vegamálum á Austurlandi.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs, ásamt fulltrúa Djúpavogshrepps, átti fund með fulltrúum Vegagerðarinnar þriðjudaginn 24. október sl., þar sem meginumfjöllunarefnið var greinargerð stofnunarinnar vegna flutnings þjóðvegar 1 af Breiðdalsheiði yfir á Suðurfjarðarveg. Að mati sveitarfélaganna var ekki faglega staðið að verki við undirbúning þessa máls, þar sem m.a. er vísað til þess að niðurstöður byggja á fjögurra ára gömlum umferðartölum, og áherslur vegna atvinnuvega s.s. landbúnaðar og stóriðju standast tæpast skoðun. Jafnframt vekur það furðu að ekki skuli hafa verið farið að ósk landshlutasamtakanna, sem á sínum tíma óskuðu eftir mati Vegagerðarinnar varðandi umrætt mál, um að niðurstöður matsins yrðu kynntar samgöngunefnd SSA.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs lýsir yfir vonbrigðum með að virt ríkisstofnun eins og Vegagerðin skuli ekki vanda betur til verka þegar að unnið er að jafn veigamiklu verkefni og þarna var til umfjöllunar.

Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða með handauppréttingu.