Bæjarstjórn ánægð með ungmennaráð

Á fundi bæjarstjórnar 4. júní var m.a. tekin fyrir síðasta fundargerð ungmennaráðs á þessu starfsári þess og greinargerð formanns ráðsins um niðurstöður ungmennaþings sem haldið var í apríl. Bæjarstjóri vakti sérstaka athygli á niðurlagi greinargerðarinnar sem er svona:

 

 

“Að lokum vil ég koma því á framfæri að það er fullt af fólki sem er til í að taka þátt í öllu þessu, það þarf þó að byrja á því að virkja fólk í því að taka þátt áður en hægt er að leggjast í einhverjar stórtækar breytingar, fólk þarf sinn tíma til að aðlagast nýjum hlutum.
Hér á Egilsstöðum þarf að verða stórfelld breyting í hugarfari hjá ungu fólki og ég held fólki í sveitarfélaginu almennt. Skilningur þarf að komast á að ef við tökum ekki þátt í því sem er að gerast mun aldrei neitt gerast, ef enginn nennir að gera neitt, gerist ekki neitt.
Kannski þarf að byrja að þjálfa þetta markvisst uppá leikskólastiginu og uppúr því lengi býr að fyrstu gerð. Við þurfum að kenna börnum að hafa fyrir hlutunum og sýna frumkvæði, kannski er þetta aðgerðarleysi í uppeldinu. Mig langar líka að benda fólki á það að krakkar frá Brúarásskóla og Fellaskóla eru yfirleitt áberandi í félagslífi og í þessum skólum eru sömuleiðis um eða yfir 80% nemenda í tónlistarnámi, spurning hvort það hafi árhif!?”

Bæjarstjórnarfulltrúar þökkuðu ráðinu fyrir vel unnin störf síðast liðinn vetur. Í máli þeirra kom fram að ungmennaráðið væri mikilvægt og hreinskiptið og að það hafi skilað mörgum góðum tillögum til bæjarstjórnar sem vakið hafi athygli. Formaður ungmennaráðsins er Hrafnkatla Eiríksdóttir.