Bæjarstjórn ánægð með atvinnulífssýningu

Fjallað var um atvinnulífssýninguna sem haldin var í Egilsstaðaskóla í lok Ormsteitisins á fundi bæjarstjórnar nýverið. Fram kemur í bráðabirgðauppgjöri fyrir sýninguna að kostnaður Fljótsdalshéraðs við hana var samkvæmt fjárhagsáætlun. Einnig var almenn ánægja sýnenda og sýningargesta með framtakið og hvernig til tókst.Í framhaldi af umræðum um málið samþykkti bæjarstjórn eftirfarandi bókun:

Bæjarstjórn lýsir ánægju sinni með hvernig til tókst með framkvæmd atvinnulífssýningarinnar sem haldin var 18. og 19. ágúst í tengslum við Ormsteitið.  Jafnframt tekur bæjarstjórn undir með atvinnumálanefnd og bæjarráði og þakkar starfsfólki sýningarinnar vel unnin störf og fyrirtækjum og einstaklingum sem þátt tóku í henni fyrir gott og ánægjulegt samstarf.