- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Ályktun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs um byggðamál
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs fagnar allri skynsamlegri umræðu um eflingu landsbyggðarinnar sem og á landinu öllu. Í þeirri umræðu sem nú á sér stað um byggðamál, meðal annars í tengslum við niðurskurð þorskveiðikvóta (og hugsanlegan flutning og sköpun opinberra starfa) er nauðsynlegt að horft sé til stöðu, styrkleika og markmiða hvers sveitarfélags. Með tilliti til þessara þriggja þátta stendur Fljótsdalshérað á traustum grunni. Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs telur að það séu ekki aðeins hagsmunir íbúa sveitarfélagsins heldur séu það hagsmunir íbúa alls Austurlands að enn frekar sé byggt á þeim grunni. Þá er vakin athygli á því að niðurskurður þorskveiðikvóta í sjávarbyggðum hefur áhrif á Fljótsdalshérað vegna hlutverks þess sem landshlutamiðstöðvar fyrir allt Austurland. Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs lýsir sig reiðubúna til samstarfs við alla hagsmunaaðila um eflingu byggðar á landsbyggðinni.
Staðan og styrkleikarnir
Fljótsdalshérað er ungt sveitarfélag sem varð til með sameiningu árið 2004. Samfélag íbúanna er líka ungt og frísklegt þó það hvíli á gömlum grunni. Þannig er 60 ára afmæli þéttbýlis við Lagarfljótið fagnað um þessar mundir. Sé litið til íbúaþróunar á landsbyggðinni síðast liðna áratugi er staða Fljótsdalshéraðs sterk þar sem fjölgun íbúa hefur verið stöðug.
Þéttbýlið Egilsstaðir/Fellabær er í dag langstærsti þéttbýliskjarninn á Austurlandi. Þar, á umferðarmestu krossgötum fjórðungsins, hefur byggst upp sífellt öflugri verslunar-, samgöngu- og þjónustumiðstöð, enda sýna kannanir að stór hluti íbúanna á Austurlandi sækir ýmis konar þjónustu í þessa landshlutamiðstöð.
Atvinnulífið er fjölbreytt og einkennist af vaxandi þörf fyrir vel menntað fólk á sviði þjónustu, tæknigreina, og þekkingarsköpunar. Gert er ráð fyrir að nýhafin uppbygging þekkingarseturs á Egilsstöðum, þar sem áhersla verður lögð á rannsóknir, nýsköpun og menntun, muni hafa jákvæð og víðtæk áhrif á samfélagið á Austurlandi öllu.
Undanfarin ár hafa átt sér stað á Héraði umfangsmestu framkvæmdir Íslandssögunnar. Þessar framkvæmdir hafa skilað sveitarfélaginu auknum tekjum vegna þeirra tímabundnu starfa sem skapast hafa vegna uppbyggingarinnar. Væntingar um fjölgun íbúa, ekki síst í tengslum við starfsemi Fjarðaáls, hafa hins vegar kallað á mikla og kostnaðarsama uppbyggingu í sveitarfélaginu. Á þessu ári lýkur að mestu framkvæmdum í tengslum við Kárahnjúkavirkjun. Í kjölfarið mun Fljótsdalshérað verða af tekjustofnum og vegur þyngst fækkun útsvarsgreiðenda um 1700 manns.
Markmiðin
Fljótsdalshérað ætlar sér að vera meðal þriggja öflugustu þekkingarsvæða á landsbyggðinni. Mikilvægur liður í þeim áformum er uppbygging þekkingarseturs á Egilsstöðum þar sem gert verður ráð fyrir öflugu starfi og samþættingu rannsóknastarfsemi, háskólamenntunar og nýsköpunar- og frumkvöðlastarfs. Nauðsynlegt er hins vegar fyrir landsfjórðunginn allan að settur verði á stofn háskóli á Egilsstöðum.
Fljótsdalshérað ætlar jafnframt að verða eitt af öflugustu kjarnasvæðum á landinu og skapa kjöraðstæður fyrir fjölbreytta þjónustu og verslun. Með uppbyggingu miðbæjar á Egilsstöðum mun enn frekari áhersla verða lögð á góða þjónustu við íbúa sveitarfélagsins sem og aðra íbúa á Austurlandi og ferðamenn. Þannig vill sveitarfélagið leggja sitt af mörkum til að bæta þjónustu og lífsgæði íbúa í fjórðungnum öllum.
Tillögur um samstarf
Bæjarstjórn ítrekar mikilvægi þess að ríkisvaldið horfi einnig til þeirra sveitarfélaga sem staðið hafa á styrkum stoðum undanfarin ár, þegar það skipuleggur aðgerðir í byggðamálum. Þá skiptir og máli að tekið sé mið af markmiðum og getu sveitarfélaganna til að byggja upp þau nútímalegu samfélög sem kallað er eftir. Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs bendir ríkisvaldinu á eftirfarandi aðgerðir sem mikilvægan lið í eflingu byggðar á Austurlandi.
Þekkingarsetur hefur verið stofnað á Egilsstöðum. Góður stuðningur við þá rannsókna- og þjónustustarfsemi sem þar er fyrirhuguð mun flýta fyrir og efla enn frekar uppbyggingu þess. Stofnun háskóla á Egilsstöðum er hins vegar mikilvæg forsenda fyrir enn kraftmeiri þróun þess þekkingarsamfélags sem Fljótsdalshérað stefnir að og Austurland allt mun njóta góðs af.
Sjúkrahúsið á Egilsstöðum er mikilvæg þjónustustofnun fyrir aldraða og sjúka á þjónustusvæði þess og Austurlandi öllu. Bygging hjúkrunarheimilis og efling þjónustu við aldraða svo og uppbygging bráðamóttöku í næsta nágrenni Egilsstaðaflugvallar er mikilvæg aðgerð til að bæta búsetuskilyrði og öryggi íbúanna á Austurlandi.
Egilsstaðaflugvöllur er eitt mikilvægasta samgöngumannvirkið í fjórðungnum vegna þess innanlands- og millilandaflugs sem þar fer fram. Lenging flugbrautar og frekari uppbygging aðstöðu á flugvellinum mun styrkja atvinnulífið á svæðinu og hafa jákvæð áhrif á þróun þess, meðal annars á ferðaþjónustu.
Skriðdalsvegur er hluti af Þjóðvegi 1 og mikilvæg samgöngutenging við sjávarbyggðir á Suð-Austurlandi. Aukið fjármagn til að ljúka við þann veg með bundnu slitlagi, samhliða uppbyggingu vegar yfir Öxi, mun efla tækifæri svæðisins enn frekar.
Úthéraðsvegur og Hlíðarvegur eru mikilvæg tenging við byggð á Úthérað, Borgarfirði og norðursvæði Austurlands, þar sem helstu atvinnugreinarnar eru landbúnaður, sjávarútvegur og ferðaþjónusta. Frekari uppbygging veganna mun styrkja stoðir samfélagsins á Austurlandi.
Jarðgöng eru mikilvæg til að tengja saman byggðarlög í landi eins og Íslandi. Jarðgöng á Austurlandi munu stækka og efla atvinnu- og þjónustusvæði landshlutans og styrkja þar búsetu.
Uppbygging tengivega innan sveitarfélagsins, sem eru víða ómalbikaðir, er mjög brýn til að auka umferðaröryggi vegfarenda og styrkja uppbyggingu ferðaþjónustu.