Bæjarráð bókar vegna jarðgangaumræðu

Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs mánudaginn 20. júlí var farið yfir stöðu mála vegna fyrirhugaðrar jarðgangagerðar undir Fjarðarheiði.

Í framhaldi af umræðu um málið var samþykkt eftirfarandi bókun:
„Bæjarráð Fljótsdalshéraðs leggur áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélögin á Austurlandi standi vörð um þær áherslur er þau hafa orðið sammála um á sínum sameiginlega vettvangi. Í samgöngumálum var m.a. samþykkt samhljóða á aðalfundi SSA sl. haust að næsta verkefni í jarðgangagerð yrðu Seyðisfjarðargöng undir Fjarðarheiði og að jafnframt yrði sett fjármagn í rannsóknir á gangakostum til tengingar miðsvæðis Austurlands.

Í umræðu undanfarinna daga, m.a. í fjölmiðlum, hefur því verið haldið fram að annað en fagleg sjónarmið ráði för í stefnumótun varðandi gangagerð á Austurlandi. Bæjarráð Fljótsdalshéraðs mótmælir þessu og bendir á að þessi sameiginlega áhersla sveitarfélaganna byggi á gögnum og úttekt viðurkenndra og óháðra fagaðila á þeim valkostum sem eru í stöðunni og unnin var fyrir Vegagerðina.“