Bæjarráð andvígt fækkun presta í sveitarfélaginu

Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs, sem haldinn var 10. nóvember síðast liðinn, var samþykkt bókun þar sem bæjarráðið varar við þeim hugmyndum sem fram koma í bréfi biskups um að fækka þjónandi prestum í sveitarfélaginu úr þremur niður í tvo. Þá segir í bókuninni: „Bæjarráð vekur athygli á því að núverandi prestar þjóna þrettán sóknum sem dreifast á tæplega tíuþúsund ferkílómetra. Að auki hefur á undanförnum árum orðið veruleg íbúafjölgun á svæðinu og þar með eykst þörfin fyrir þjónustu presta. Miðað við ofangreint telur bæjarráð engar forsendur til að fækka opinberum störfum enn og aftur á þessu svæði. Bæjarráð skorar á biskup að endurskoða boðaða ákvörðun og viðhafa eðlilegt samráð við sóknarbörn á svæðinu."