Austurland tækifæranna með nýja vef

Nýr vefur verkefnisins Austurland tækifæranna hefur verið opnaður á vefslóðinni www.austurat.is. Austurland tækifæranna er átaksverkefni sem sveitarfélögin Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað hafa í sameiningu frumkvæði að.

Markmiðið með vefnum er að fylgja eftir mikilli uppbyggingu á Austurlandi á undanförnum árum og halda til haga upplýsingum um störf, búsetukosti og lífsgæði í sveitarfélögunum og á Austurlandi.
Samstarfsaðilar sveitarfélaganna í verkefninu eru Vinnumálastofnun, Þróunarfélag Austurlands og Alcoa Fjarðaál.

Sem kunnugt er hafa verið mikil umsvif á Austurlandi að undanförnu í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álver Alcoa við Reyðarfjörð. Samhliða hefur þjónusta tekið miklum stakkaskiptum, hvort heldur litið er til sveitarfélaganna eða fyrirtækja. Gott framboð starfa er á svæðinu en Austurland er það svæði landsins þar sem hagvöxtur hefur verið hvað mestur á landinu á undanförnum árum. Fyrirsjáanlegt er að vöxturinn heldur áfram og er nýr vefur verkefnisins Austurland tækifæranna mikilvægur liður í að miðla til almennings á einum stað upplýsingum um störf, búsetuvalkosti og þjónustu á Austurlandi.

Á nýja vefnum er að finna ýmsar grunnupplýsingar um sveitarfélögin og svæðið í heild. Vefurinn er tengdur starfatorgi Vinnumálastofnunar, og á honum er einnig að finna fasteignaleitarvél fyrir Austurland. Þá eru kynningarmyndbönd á vefnum og viðtöl við fólk sem hefur gripið tækifærið á undanförnum misserum og flutt á Austurland.

Að vinnslu vefsvæðisins komu Íslenska auglýsingastofan, Eskill, almannatengslafyrirtækið Athygli og verkefnisstjórn skipuð fulltrúum samstarfsaðilanna.