Austurland tækifæranna

Í dag, föstudaginn 24. nóvember kynntu Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað samstarfsverkefnið  Austurland tækifæranna. 

Kynning verkefnisins fór fram kl. 11.00 á táknrænum stað við vatnaskil á Fagradal miðjum en þar liggja mörk sveitarfélaganna. Tilgangurinn með samstarfinu er að kynna þau gríðarlegu atvinnu- og nýsköpunartækifæri sem eru á Austurlandi, meðal annars í tengslum við byggingu álvers Alcoa Fjarðaáls. 
Markmiðið með þessu verkefni er að safna saman á einni vefsíðu upplýsingum um laus störf og tækifæri til nýsköpunar á Mið-Austurlandi.  Með bættu aðgengi að upplýsingum vilja sveitarfélögin auðvelda fólki að finna störf við sitt hæfi og kveikja hugmyndir að nýjum fyrirtækjum. 
 
Á vefsíðunni Austurland tækifæranna - http://storf.austur.is – má finna starfatorg með upplýsingum um laus störf í sveitarfélögunum tveimur, listi yfir þjónustu sem íbúar vilja gjarnan fá bætta og einnig upplýsingar um þau tækifæri sem m.a. verða til í tengslum við uppbyggingu álvers Fjarðaáls. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu og geta þau auglýst störf á vefnum sér að kostnaðarlausu.

Svo vill til Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð opnuðu á dögunum nýjar glæsilegar vefsíður með ítarlegum upplýsingum um sveitarfélögin og þá þjónustu sem þau veita.

Samstarfaðilar sveitarfélaganna í þessu verkefni eru Þróunarfélag Austurlands, Vinnumálastofnun Austurlandi og Alcoa Fjarðaál.  Þróunarfélagið hýsir vefinn Austurland tækifæranna og býður frumkvöðlum aðstoð og leiðbeiningar við stofnun fyrirtækja og gerð viðskiptaáætlana. Vinnumálastofnun leggur verkefninu lið með umsjón með starfatorginu og aðstoðar þá sem þess óska við gerð starfslýsinga og auglýsingu starfa.