- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Samstarfsverkefnið „Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi?“ er eitt fimm verkefna sem tilnefnd eru til Íslensku safnaverðlaunanna 2020.
Verkefnið var samstarfsverkefni níu austfirskra mennta- menningar- og rannsóknarstofnanna í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands árið 2018. Markmiðið var að skoða með nýstárlegum hætti hugtökin fullveldi og sjálfbærni og tengslin þar á milli. Settar voru upp fjórar sýningar á jafnmörgum söfnum á Austurlandi, þ.e. Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum, Tækniminjasafninu á Seyðisfirði, Sjóminjasafninu á Eskifirði og á Skriðuklaustri í Fljótsdal þar sem aðstæður barna árin 1918 og 2018 voru bornar saman og speglaðar við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Jafnframt var opnuð heimasíða með fræðsluefni og margvíslegum fróðleik.
Í umsögn dómnefndar segir að verkefnið sé „fordæmisgefandi um hvernig söfn af hvaða stærðargráðu sem er geta gert sig gildandi í samfélagsumræðunni og verið leiðandi í samstarfi við fleiri stofnanir. Sýningin tók á knýjandi málefnum samtímans, tengdi safnkost við samfélagið þá, nú og í náinni framtíð með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.“
Auk fyrrnefndra safna komu Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Skólaskrifstofa Austurlands, Landgræðsla ríkisins og Menntaskólinn á Egilsstöðum einnig að verkefninu en það var leitt af Austurbrú.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir Íslensku safnaverðlaunin við hátíðlega athöfn þann 18. maí næstkomandi, á alþjóðlegum degi safna, í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Athöfninni verður streymt á samfélagsmiðlum í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu.
Til hamingju með tilnefninguna!