Aukning í þrek og sund

Mikil aukning hefur verið á aðsókn í íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum frá síðasta ári. Heildaraukning á mætingu í þrek og sund á milli ára er um 20% en verðið hefur staðið í stað á milli ára.

Í janúar 2008 voru 4.938 heimsóknir í íþróttamiðstöðina á móti 5.923 heimsóknum í janúar 2009. Mætingar í sund í janúar 2008 voru 1.392 en það voru 1.889 í janúar 2009 eða tæplega 36% aukning á milli ára. Þeir sem komu svo í þrek og sund ( en það er fyrir utan þá sem aðeins mæta í sund) í janúar 2008 voru 3.546 á móti 4.024 mætingum í janúar 2009 eða um 13,5% aukning. Hreinn Halldórsson forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar segist ekki hafa neinar skýringar á þessari aukningu í íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum. Hann segist hafa séð tölur um aukningu í líkamsræktarstöðvar í Reykjavík og hafi sú aukning verið tengd við ástandið í þjóðfélaginu í dag. Þar hefði verið talað um að þegar þrengdi að hjá fólki þá hugsaði það nær sér í staðinn fyrir annað sem kostaði meira. Með meira atvinnuleysi þá verði meiri tími til ráðstöfunnar og fólk reyndi að hugsa meira um sjálft sig við þær aðstæður. Í beinum tengslum við atvinnuleysið þá hafa stéttarfélög í landinu verið með sérstök tilboð fyrir þá sem eru atvinnulausir í líkamsrækt og sund. Allar frekari upplýsingar um íþróttamiðstöðina má sjá á heimasíðu hennar hér.