- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands auglýsir til umsóknar starf forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi, sem jafnframt er starf sérfræðings.
Stofnun Rannsóknasetra Háskóla Íslands hyggst koma að nýju á fót Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Austurlandi sem starfaði þar á árunum 2008 til 2010. Frá haustinu 2014 hefur akademískur sérfræðingur á vegum stofnunarinnar haft aðsetur og unnið sínar rannsóknir á Austurlandi.
Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Austurlandi er ætlað að sinna rannsóknum á breiðu sviði með áherslu á tengsl manns og náttúru. Auk sjálfstæðra akademískra rannsókna hefur forstöðumaður umsjón með starfsemi setursins, fjármálum þess og daglegum rekstri. Hann skipuleggur rannsóknir og samstarfsverkefni, hefur með höndum áætlanagerð og stýrir sókn í sjóði. Hann þarf að geta tekið að sér leiðbeiningu háskólanema í framhaldsnámi og aðra kennslu á háskólastigi.
Innan Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands eru 9 sjálfstæð rannsóknasetur víða um land. Rannsóknir eru meginviðfangsefni rannsóknasetranna, og eru viðfangsefnin fjölbreytt og tengjast nærumhverfi setranna með einhverjum hætti. Lögð er rík áhersla á árangur í starfi, áhrif og gæði rannsókna og hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna. Þá er stofnunin jafnframt vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.
Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi á sviði umhverfisfræða, t.d. í umhverfissagnfræði eða skyldum greinum og hafa stundað sjálfstæðar rannsóknir á því sviði. Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, lipurð í mannlegum samskiptum, gott vald á ensku og íslensku er nauðsyn. Reynsla af alþjóðasamstarfi sem og reynsla af þverfræðilegu samstarfi er æskileg. Þá er reynsla af sókn í innlenda sem erlenda rannsóknasjóði kostur. Umsækjendur skulu leggja fram rannsóknaáætlun til fimm ára þar sem skal koma fram hvernig rannsóknir umsækjanda tengjast Austurlandi.
Forstöðumaðurinn verður starfsmaður Háskóla Íslands en hefur starfsaðstöðu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi. Starfsstöð setursins er á Egilsstöðum og er gert ráð fyrir að forstöðumaðurinn gegni starfi sínu þaðan. Búseta á svæðinu er skilyrði. Um fullt starf er að ræða og verður ráðið í starfið til fimm ára með möguleika á ótímabundinni ráðningu að þeim tíma liðnum, sbr. 3. mgr. 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.
Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um Háskóla nr. 85/2008 og reglna um Háskóla Íslands nr. 569/2009. Sérstök nefnd sem rektor skipar annast mat og forgangsröðun umsókna.
Umsóknarfrestur er til 30. apríl 2018.
Sótt er um starfið á vefsíðu Háskóla Íslands undir laus störf.
Umsækjendur skulu láta rannsóknaáætlun til fimm ára fylgja umsókn sinni, vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Umsókn og umsóknargögn sem ekki er skilað rafrænt skal skila í tvíriti til Vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 2, 101 Reykjavík.
Allar nánari upplýsingar um starfið veitir Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Rannsóknasetra Háskóla Íslands í síma 525 4041, saeunnst@hi.is .
Öllum umsækjendum verður svarað og þeim tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun liggur fyrir. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.
Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara.
Við ráðningu í störf við Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun Háskóla Íslands.