Auglýst eftir umsóknum í Fjárafl

Fjárafl, atvinnu- og þróunarsjóður Fljótsdalshéraðs, hefur auglýst eftir umsóknum. Sjóðnum er ætlað að koma að stuðningi við verkefni sem eflt geta byggð í dreifbýli sveitarfélagsins. Framlag sjóðsins getur verið í formi styrkja, lána, hlutafjár eða stofnframlags.

Aðstoð sjóðsins til samþykktra aðila getur falist í eftirfarandi:

Styrkjum til verkefna er lúta að atvinnusköpun og atvinnuþróun, hagnýtum rannsóknum og framþróun annarra samfélagsþátta sem áhrif geta haft á búsetu í dreifbýli sveitarfélagsins.

Lánum til nýsköpunarverkefna á sviði vöruþróunar, sóknar á nýja markaði, tækniyfirfærslu milli fyrirtækja eða stofnunar sprotafyrirtækja. Áhættulán og skuldabréfalán sem veitt eru geta innifalið breytirétt í hlutafé.

Hlutafjárkaupum í fyrirtækjum sem eru til þess fallin að styrkja atvinnulíf sem fyrir er í dreifbýlinu og/eða skapa störf sem auka atvinnumöguleika íbúa þess.

Stofnfjárframlögum til samvinnufélaga og sjálfseignarstofnana sem hafa hlutverk er varðar hagsmuni íbúa, fyrirtækja eða stofnana í dreifbýli.
 

Umsóknarfrestur er til 15. febrúar og er miðað við að úthlutun fari fram á ársfundi sjóðsins í mars.

Umsóknum skal skila á skrifstofu Fljótsdalshéraðs á Brúarási, Fellabæ eða Egilsstöðum.

Á heimasíðu sveitarfélagsins, hérna, er hægt að nálgast starfsreglur sjóðsins, samþykktir hans, úthlutunarreglur og umsóknir. Þetta má einnig fá á skrifstofu sveitarfélagsins.