Auglýst eftir fræðimanni til starfa á Egilsstöðum

Auglýst er eftir akademískum sérfræðingi til starfa á Egilsstöðum í tengslum við rannsóknarverkefni Stofnunar Rannsóknarsetra HÍ, Maður og náttúra. Sérfræðingurinn þarf að vera með doktorspróf og geta tekið að sér að leiðbeina háskólanemum í framhaldsnámi. Umsóknarfrestur rennur út 18. ágúst.


Auglýsingin er svohljóðandi:

Akademískur sérfræðingur – Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands – starfsstöð á Egilsstöðum

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands auglýsir laust til umsóknar starf akademísks sérfræðings við Stofnun Rannsóknasetra Háskóla Íslands á starfsstöð hennar á Egilsstöðum.

Stofnun Rannsóknasetra Háskóla Íslands hyggst koma á fót rannsóknarverkefni til tveggja ára undir yfirskriftinni Maður og náttúra frá og með haustinu 2014, í samvinnu við sveitarfélagið Fljótsdalshérað. Umsækjendum er skylt að leggja fram ítarlega rannsóknaáætlun um hvernig þeir hyggjast nálgast rannsóknarverkefnið, en það má nálgast út frá greinum félagsvísinda, heilbrigðisvísinda, hugvísinda, menntavísinda og/eða verkfræði- og náttúruvísinda.

Markmið Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands er að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni, auka möguleika almennings til menntunar og styrkja tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf. Stofnunin er jafnframt vettvangur samstarfsverkefna háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.

Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi. Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, lipurð í mannlegum samskiptum, gott vald á ensku og íslensku er nauðsyn. Reynsla af alþjóðasamstarfi er æskileg sem og reynsla af því að byggja upp samstarf ólíkra aðila.

Auk sjálfstæðra akademískra rannsókna þarf starfsmaðurinn að geta tekið að sér að leiðbeina háskólanemum í framhaldsnámi.

Sérfræðingurinn verður starfsmaður Háskóla Íslands en hefur starfsaðstöðu á Egilsstöðum í Austurbrú og gegnir starfi sínu þaðan. Búseta á svæðinu er skilyrði. Um fullt starf er að ræða og verður ráðið í starfið til tveggja ára með möguleika á framlengingu.

Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um Háskóla nr. 85/2008 og reglna um Háskóla Íslands nr. 569/2009. Sérstök nefnd sem rektor skipar annast mat og forgangsröðun umsókna.

Umsóknarfrestur er til 18. ágúst 2014.

Umsóknir skulu berast á rafrænu formi á netfangið bmz@hi.is merkt HI14070021. Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni rannsóknaáætlun um verkefnið Maður og náttúra, vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á. Umsókn og umsóknargögn sem ekki er skilað rafrænt skal skila í tvíriti til Vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands, Sæmundargötu 2, 101 Reykjavík.

Öllum umsækjendum verður svarað og þeim tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun liggur fyrir.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara. Við ráðningar í störf hjá Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Allar nánari upplýsingar um starfið veitir Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Rannsóknasetra Háskóla Íslands í síma 525 4041, saeunnst@hi.is .