Auglýst eftir forstöðumanni fræðaseturs

Stjórn Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands hefur auglýst laust til umsóknar starf forstöðumanns Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi, sem staðsett er á Egilsstöðum.

Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Austurlandi er staðsett á Egilsstöðum og er vettvangur fyrir samstarf  Háskóla Íslands við sveitarfélög á Austurlandi, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga. Setrið starfar m.a. í náinni samvinnu við Þekkingarnet Austurlands.

Meginhlutverk setursins er að efla starfsemi Háskóla Íslands á Austurlandi með rannsóknum á samfélagsþróun í staðbundnu og alþjóðlegu samhengi. Setrinu er jafnframt ætlað að stuðla að margvíslegri háskólakennslu á Austurlandi og að þar verði haldin norræn og/eða alþjóðleg námskeið.

Jafnframt því að stunda eigin rannsóknir skal forstöðumaður hafa umsjón með starfsemi setursins, starfsfólki, fjármálum og daglegum rekstri. Forstöðumaður þarf að geta tekið að sér að leiðbeina háskólanemum í framhaldsnámi og aðra kennslu á háskólastigi og skal halda skrá yfir þá háskólamenn sem hafa aðstöðu í setrinu.

Í auglýsingu um starfið kemur fram að umsækjendur skulu hafa lokið meistara- eða doktorsprófi frá viðurkenndum háskóla eða annarri sambærilegri menntun og hafa sérþekkingu á rannsóknarsviðum setursins um atvinnu- og byggðaþróun. Þá er nauðsynlegt að umsækjendur hafi stundað sjálfstæðar rannsóknir. Reynsla af alþjóðasamstarfi er æskileg. Umsækjendur þurfa að hafa frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, gott vald á ensku og íslensku og lipurð í mannlegum samskiptum.

Forstöðumaður er starfsmaður Háskóla Íslands en mun hafa starfsaðstöðu á Egilsstöðum og gegna starfi sínu þaðan. Um fullt starf er að ræða.

Í auglýsingu kemur jafnframt eftirfarandi fram:
Umsóknarfrestur er til 14. apríl 2009.  Æskilegt er að umsækjandi geti hafið störf sem fyrst. Umsóknir og umsóknargögn skal senda til Starfsmannasviðs Háskóla Íslands, Aðalbyggingu við Suðurgötu, 101 Reykjavík, eða á netfangið starfsumsoknir@hi.is . Umsóknum skulu fylgja:
• Upplýsingar um menntun og starfsreynslu.
• Skýrsla um vísindastörf umsækjanda, rannsóknir og ritsmíðar (ritaskrá).
• Greinargerð um þær áherslur sem umsækjandi hyggst leggja í starfi forstöðumanns verði hann ráðinn.
• Umsagnir eða meðmæli.
Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum greint frá ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin.
Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.
Allar nánari upplýsingar um starfið veitir Rögnvaldur Ólafsson, forstöðumaður Stofnunar Fræðasetra Háskóla Íslands í síma 525 4929, rol@hi.is .
Við ráðningar í störf hjá Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.