- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Auglýsing frá yfirkjörstjórn Fljótsdalshéraðs um framlagningu kjörskrár og kjörstað við sveitarstjórnarkosningar þann 31. maí 2014.
Kjörskrá vegna sveitarstjórnarkosninga á Fljótsdalshéraði, sem fram fara hinn 31. maí 2014, mun liggja frammi almenningi til sýnis á skrifstofu sveitarfélagsins að Lyngási 12 á Egilsstöðum á opnunartíma skrifstofu, frá og með miðvikudeginum 21. maí 2014 til og með föstudeginum 30. maí 2014.
Óskum um leiðréttingar á kjörskrá skal komið á framfæri við bæjarstjóra eins fljótt og unnt er. Tekið skal fram að óheimilt er að breyta kjörskrá ef tilkynning um nýtt lögheimili hafði ekki borist þjóðskrá þann 10. maí 2014.
Kjörstaður við sveitarstjórnarkosningarnar þann 31. maí verður í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Kjörfundur hefst kl. 09.00 og lýkur kl. 22.00.
Kjördeildir verða tvær. Í kjördeild nr. 1 verða íbúar á Egilsstöðum sem búa við götur, hverra nöfn byrja á bókstafnum A til og með bókstafnum R. Í kjördeild 2 verða íbúar á Egilsstöðum sem búa við götur hverra nöfn byrja á bókstafnum S - Þ og íbúar í Fellabæ, Eiðum og Hallormsstað og í dreifbýli á Fljótsdalshéraði.
Á kjördag, meðan atkvæðagreiðsla stendur yfir, mun yfirkjörstjórn hafa aðsetur sitt í Menntaskólanum á Egilsstöðum.
Talning atkvæða fer fram í Menntaskólanum á Egilsstöðum og hefst að kjörfundi loknum.
Yfirkjörstjórn Fljótsdalshéraðs 19. maí 2014
Bjarni G Björgvinsson, Einar Rafn Haraldsson, Erlendur Steinþórsson