Atvinnumálaþing í Valaskjálf

Atvinnumálaþing verður haldið í Valaskjálf, á morgun föstudaginn 6. mars og hefst kl. 14.00. Þingið er haldið að frumkvæði atvinnumálanefndar Fljótsdalshéraðs í samvinnu við Þróunarfélag Austurlands.


Staða atvinnumála í sveitarfélaginu verður þar í brennidepli ásamt því að reynt verður að draga fram þau tækifæri sem eru í sjónmáli í samfélaginu og hvering hægt er að nýta þau betur. Þarna fá aðilar atvinnulífsins tækifæri til skrafs og ráðagerða um stöðu mála og horfur til framtíðar. Um leið er tækifæri fyrir þessa aðila að nálgast hvora aðra og auka og forma frekara samstarfs atvinnulífs, sveitarfélagsins og stoðstofnana þess. Guðmundur Ólafsson formaður atvinnumálanefndar segir að hans væntingar til þingsins séu að skrefið verið stigið til enn frekara samstarfs á milli sveitarfélagsins og atvinnulífsins á svæðinu með það að markmiði að efla þá starfsemi og þann grunn sem er til staðar um leið og tækifæri til nýsköpunar verða könnuð og virkjuð. Guðmundur og nefndin öll væntir góðrar þátttöku allra hagsmunaaðila um leið og þau hvetja til almennrar þátttöku.

Guðmundur kemur til með að hefja þingið með sinni framsögu, en hann fjallar um samspil sveitarfélags og atvinnulífs. Þá heldur Unnar Elísson, framkvæmdastjóri Myllunar tölu um stöðuna í dag og tækifærin í verktakabransanum. Framkvæmdarstjóri Hótel Héraðs, Auður Ingólfsdóttir, fjallar þá um ferðaþjónustuna, hvort hún er einsleit, viðkvæm og vannýtt. Síðasta framsaga fyrir umræður er flutt af Þresti Jónssyni, framkvæmdastjóra DomesticSoft, en hann fjallar um kísildal á bökkum Lagarfljóts.

Þegar framsögum lýkur verða umræður í nokkrum vinnuhópum. Meðal annars verður til umræðu rekstraumhverfið og staða atvinnulífsins,  hlutverk opinberra aðila, sveitarfélagsins og stoðkerfisins við sköpun starfa og eflingu atvinnulífs. Einnig verða tækifæri til framtíðar svo sem vaxtabroddar rædd. Þá verða umræður um stofnun vettfangs atvinnulífsins á Héraði.

Að loknum umræðum verða kaffiveitingar og kynning á stoðþjónustu atvinnulífsins. Þær stoðþjónustur sem verða kynntar af sínu starfsfólki eru Búnaðarsamband Austurlands, Héraðs- og Austurlandsskógar, Markaðsstofu Austurlands, Menningarráð Austurlands, Skógrækt ríkisins, Vatnajökulsþjóðgarður, Vaxtarsamningur Austurlands, Vinnumálastofnun, Vísindagarðurinn, Þekkingarnet Austurlands og Þróunarfélag Austurlands.

Þinginu lýkur með sögu af nýsköpun sem Jóhnn Jónasson, framkvæmdarstjóri 3X Technology á Ísafirði flytur.

Fundarstjóri þingsins er Vigdís Sveinbjörnsdóttir, formaður Búnaðarsambands Austurlands. Þingið er opið öllum íbúum sveitarfélagsins sem láta sér hagsmuni og framþróun sveitarfélagsins varða.