Atvinnumálasjóður auglýsir eftir umsóknum

Auglýstir hafa verið til umsóknar styrkir úr Atvinnumálasjóði Fljótsdalshéraðs, með umsóknarfresti til 8. febrúar 2018. Markmið sjóðsins er að að efla atvinnutengda starfsemi og búsetu á Fljótsdalshéraði og er honum ætlað að ná tilgangi sínum m.a. með því að veita styrki til verkefna einstaklinga, fyrirtækja og stofnana er lúta að atvinnusköpun og atvinnuþróun, hagnýtum rannsóknum og framþróun annarra samfélagsþátta sem áhrif geta haft á atvinnustarfsemi og búsetu í sveitarfélaginu.

Umsækjendur verða að geta sýnt fram á fjárhagslega framtíð verkefnis og getur styrkur Atvinnumálasjóðs aldrei verið meiri en sem nemur 30% af heildarfjármögnun verkefnisins.

Með umsókninni verður að fylgja greinargóð lýsing á verkefninu, verkáætlun með tímasetningum, fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um aðstandendur.

Vakin er athygli á því að ónýttar styrkveitingar renna út að 3 mánuðum liðnum frá afgreiðslu styrks og þarf umsækjandi að endurnýja umsókn með skriflegu erindi til atvinnumálafulltrúa innan 6 mánaða, að öðrum kosti þarf að senda inn nýja formlega umsókn ásamt gögnum.
Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér samþykktir fyrir sjóðinn og úthlutunarreglur sem finna má hér.
Hægt er að nálgast umsóknareyðublöð fyrir sjóðinn hér, eða fá þau afhent á skrifstofu þess.

Umsóknarfrestur er til 8. febrúar 2018, en umsóknum skal skila á skrifstofu Fljótsdalshéraðs að Lyngási 12, Egilsstöðum eða senda á netfangið fljotsdalsherad@fljotsdalsherad.is