Atvinnulífsýningunni Okkar samfélag lokið

Atvinnulífssýningin Okkar samfélag fór fram í Egilsstaðaskóla um síðustu helgi og tókst hún vel í flesta staði. Alls voru um 80 fyrirtæki og einstaklingar sem kynntu þar vörur sínar og þjónustu þessa helgina. Það sem einkenndi sýninguna, meðal annars, var sú mikla vinna sem þátttakendur lögðu á sig til að gera hana vandaða, spennandi og skemmtilega og sú jákvæðni, velvilji og samstarfsgleði sem þar ríkti. Um 3.000 gestir sóttu sýninguna.

Upphaflegu markmiðin með atvinnulífssýningunni voru að gefa fyrirtækjum og einstaklingum tækifæri til að kynna þær vörur og þjónustu sem þau hafa upp á að bjóða, en einnig að gefa aðilum atvinnulífsins vettvang til að sameinast á og eiga samskipti sín á milli og loks að sýna þann kraft og fjölbreytileika sem einkennir atvinnulífið á svæðinu.

Á sýningunni voru fluttar nokkrar áhugaverðar hugleiðingar eða erindi, flestar um atvinnutengd málefni. Hugleiðingarnar fluttu þau Sigrún Halla Unnarsdóttir fatahönnuður, Helgi Ómar Bragason skólameistari ME, Guðmundur Davíðsson framkvæmdastjóri HEF, Eygló Björk Ólafsdóttir hjá Austfirskum krásum, Elísabet Karlsdóttir nemi í fatahönnun, Magnús Stefánsson hjá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi og Þórunn Hálfdánardóttir hjá Austurneti. Stefnt er að því að birta þessar hugleiðingar á heimasíðu Fljótsdalshéraðs, á næstu dögum.

Á sýningunni kom auk þess fram margt listafólk á öllum aldri og má þar nefna Ingimar Hrímnir, Sigurð Borgar og Steinunni Rut sem fluttu brot úr leikgerð Hrafnkelssögu, eftir Sigurlaugu Gunnarsdóttur í leikstjórn Þráins Sigvaldasonar. Erla Dóra Vogler söng við undirleik Jónasar Þórs Jóhannssonar, Valný Lára Jónsdóttir flutti lag úr sönglagakeppni Ormsteitis eftir Sigþrúði Sigurðardóttur sem spilaði undir á gítar, einnig flutti Valný Lára lög eftir ömmu sína Bergþóru Árnadóttur og spilaði sjálf á gítar. Guðgeir Björnsson flutti nokkur lög með undirleik Jónasar Þórs og Óðins Gunnars.

Flutt voru lög úr söngvarakeppni Ormsteitis af mörgum ungum listamönnum, þeim Írisi Emblu Jónsdóttur, Alexöndru Elíasdóttur, Heklu Maren Baldursdóttur, Þorgerður Sigga Þráinsdóttur og Karen Ósk Björnsdóttur undir stjórn Hafþórs Mána Valssonar. Sigurður Eymundsson og Hreinn Halldórsson spiluðu á harmonikku og Hreinn ásamt Brodda Bjarnasyni og Sóleyju Guðmundsdóttur fluttu nokkur lög og texta eftir Hrein, og einnig eftir Jónbjörgu Eyjólfsdóttur og Björn Þorsteinsson. Sigurjón Jónasson sýndi auk þess ljósmyndir frá fyrri tíð.

Þessum listamönnum, fyrirlesurum, öllum þeim fjölmörgu fyrirtækjum og einstaklingum sem sýndu á sýningunni svo og öðrum sem lögðu henni lið er kærlega þakkað fyrir þeirra framlag til atvinnulífssýningarinnar.

Á sýningunni bauð Fljótsdalshérað gestum að taka þátt í léttum spurningaleik. Dregið hefur verið úr réttum lausnum og var Elín Tómasdóttir, Útgarði 7, Egilsstöðum, sú heppna og hlýtur hún flugferð til Reykjavíkur í vinning.

Sjónvarpsstöðin N4 gerði Atvinnulífssýninguninni góð skil og má sjá þáttinn á á þessari slóð: http://www.n4.is/tube/file/view/2774/

Myndir af sýningunni má sjá hér.