Á Egilsstöðum er unnið að því að byggja upp athvarf fyrir fólk með geðraskanir og geðfötlun. Athvarfið hefur hlotið nafnið Kompan í höfuðið á húsnæðinu sem lagt verður undir starfsemina. Við þróun og mótun þjónustunnar verður lögð áhersla á þátttöku og virkni notenda og aðstandenda þeirra.
Þetta verkefni er liður í samkomulagi á milli félagsmálaráðuneytis og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi um að efla dagþjónustu og dagvist fyrir fólk með geðraskanir. Samkomulagið var gert í samræmi við átak í þjónustu við geðfatlað fólk, stefnu og framkvæmdaáætlun ráðuneytisins 2006 til 2010. Aðrir samstarfsaðilar í verkefninu eru Félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs, Heilbrigðisstofnun Austurlands, deild Geðhjálpar á Austurlandi og Austurlandsdeild Rauða kross Íslands.
Athvarfið verður í Kompunni svokölluðu að Lyngási 12 sem er húsnæði í eigu sveitarfélagsins. Á næstu vikum hefst vinna við enduruppbyggingu Kompunnar en ljóst er að húsnæðið krefst talverðrar lagfæringar áður en hægt verður að hefja starfsemina formlega. Stefnt er að því að Kompan opni í lok september.
Um starfsemina
Kompan verður athvarf fyrir fólk sem hefur einangrast félagslega vegna geðraskanna. Í Kompunni mun fólk geta hitt annað fólk sem deilir svipaðri reynslu og fengið aðstoð fasts starfsmanns eftir þörfum. Engar kvaðir munu fylgja því að heimsækja Kompuna. Í henni mun ekki fara fram nein skipulögð meðferð og í henni þarf fólk ekki að taka þátt í iðju eða öðru starfi frekar en það vill. Það er von þeirra sem koma að verkefninu að vonandi skapist hægt og rólega afslappandi og þægilegt andrúmsloft sem fólk leitar í. Í Kompunni verður fastur starfsmaður á vegum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi sem þjónar ráðgjafahlutverki í ýmsum málum sem notandinn þarfnast úrlausnar á.
Myndatexti: Elísabet Ósk Sigurðardóttir í Kompunni en hún mun í framtíðinni gegna starfi ráðgjafa í henni. Eins og sést á myndinni á eftir að taka húsnæðið rækilega í gegn áður en hægt verður að opna.