Átak gegn heimilisofbeldi

Frá undirritun samstarfsyfirlýsingar. Sitjandi frá vinstri: Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í…
Frá undirritun samstarfsyfirlýsingar. Sitjandi frá vinstri: Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, Inger L. Jónsdóttir, lögreglustjóri á Austurlandi, og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði.
Standandi frá vinstri: Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, Jónas Wilhelmsson Jensen yfirlögregluþjónn og Júlía Sæmundsdóttir, félagsmálastjóri Fljótsdalshéraðs

Inger L. Jónsdóttir, lögreglustjóri á Austurlandi, Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði,  undirrituðu í dag samstarfsyfirlýsingu um átak gegn heimilisofbeldi. Í yfirlýsingunni felst að þann 1. mars nk. munu lögregla og félagsþjónusta á Austurlandi taka upp samstillt verklag í starfsemi sinni. Markmiðið er markvissari viðbrögð og úrræði gegn heimlisofbeldi og að veita þolendum og gerendum aðstoð og bæta stöðu barna, sem búa við ofbeldi á heimilum.

Fyrirmyndin er verklagið „Að halda glugganum opnum“, sem er samstarfsverkefni lögreglu og félagsþjónustu á Suðurnesjum, sem miðar að því að bæta rannsóknir í málum er varða heimilisofbeldi, nýta betur úrræði um brottvísun af heimili og nálgunarbann og að koma fleiri málum í gegnum réttarvörslukerfið.

Verkefnið, sem er átaksverkefni gegn heimilisofbeldi,  á að standa í eitt ár og verður árangur metinn að þeim tíma liðnum. Allt umdæmi lögreglustjórans á Austurlandi er því komið undir sama verklag í heimilisofbeldismálum.