Áskorun til Íbúðalánasjóðs

Á fundi bæjarstjórnar þann 19. september var til umfjöllunar fundargerð 799. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í 13. lið hennar var bókun varðandi húsnæði í eigu Íbúðalánasjóðs og tók bæjarstjórn hana sérstaklega til umfjöllunar og lagði í framhaldinu fram eftirfarandi tillögu sem samþykkt var samhljóða:

„Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs skorar á stjórn Íbúðalánasjóðs að hlutast til um að eignir sjóðsins á Fljótsdalshéraði verði auglýstar til leigu. Sé horft til þeirra viðmiða er sjóðurinn notar við slíkar ákvarðanir má ljóst vera að staða Íbúðalánasjóðs á leigumarkaði á svæðinu er langt undir settum viðmiðunarmörkum. Ætla má að þær tekjur sem útleiga íbúðaeigna sjóðsins á svæðinu skapa séu til þess fallnar að létta undir með rekstri eignanna auk þess sem að fækkun tómra íbúða mun hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu á svæðinu til lengri tíma litið.

Fyrir liggur að nokkur eftirspurn er eftir leiguhúsnæði á Fljótsdalshéraði og þá sérstaklega stærri eignum.  Þess er vænst að eignir úr öllum stærðaflokkum verði auglýstar til leigu í svæðisfjölmiðlum hið fyrsta.“